Viðskipti innlent

Einn á móti fjórum í peningastefnunefndinni

Magnús Halldórsson skrifar
Már Guðmundsson, seðlabankastjóri.
Már Guðmundsson, seðlabankastjóri.
Einn nefndarmanna í Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands vildi halda vöxtum óbreyttum en ekki hækka þá um 0,25 prósentustig í sex prósent eins og gert var á síðasta vaxtaákvörðunardegi. Þetta kemur fram í fundargerð Peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands, frá fundi fyrir vaxtaákvörðunina síðustu.

Í fundargerðinni segir meðal annars að einn nefndarmanna hefði ekki viljað styðja tillögu Más Guðmundssonar, seðlabankastjóra, um að hækka vexti þar sem hann teldi að merki um efnahagsbata væru enn veik.

„Einn nefndarmaður greiddi hins vegar atkvæði gegn tillögu seðlabankastjóra og vildi halda vöxtum óbreyttum. Taldi hann batann enn viðkvæman þar sem vísbendingar væru um að hægt hefði á vexti innlendrar eftirspurnar og bati á vinnumarkaði væri enn hægur. Taldi hann litlar líkur á að mikil innlend eftirspurn orsakaði vaxandi verðbólgu, einkum í ljósi efnahagsástands í helstu viðskiptalöndum. Auk þess taldi hann áhrif hærri vaxta á gengi krónunnar vera óviss við skilyrði gjaldeyrishafta. Að lokum hefði vaxtahækkun neikvæð framboðsáhrif sem kæmu m.a. fram í auknum föstum kostnaði fyrirtækja sem yki þrýsting á vinnumarkaði," segir í fundargerðinni.

Nefndarmenn í peningastefnunefndinni eru Már Guðmundsson, seðlabankastjóri og formaður nefndarinnar, Arnór Sighvatsson, aðstoðarseðlabankastjóri, Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur, Gylfi Zoëga, prófessor, og Katrín Ólafsdóttir, lektor.

Aldrei er upplýst um hver er afstaða einstaka nefndarmanna til vaxtaákvarðana, undir nafni, í fundargerðunum.

Sjá má fundargerð peningastefnunefndar hér.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×