Viðskipti innlent

Mæla gegn kaupum í Vodafone

Vodafone.
Vodafone.
IFS ráðgjöf verðleggur hlutabréf í Vodafone á 25,1 krónu og telur fjárfesta gera best með því að halda að sér höndum í hlutafjárútboði samkvæmt frétt sem birtist í Viðskiptablaðinu í dag.

Þar kemur fram að IFS Greining telur hlutabréfakaup í útboði Fjarskipta hf., rekstrarfélags Vodafone á Íslandi, óráðleg fyrir fjárfesta með langtímasjónarmið.

„Í okkar huga er félag með rekstur án vaxtar selt á verði sem felur í sér talsverðan vöxt. Félagið er þess utan lítið, í atvinnugrein sem breytist nokkuð hratt og ófyrirsjá- anlega með tækni, samstarfssamningum og reglum," segir í virðismati IFS á Vodafone. Virðismatsgengi er samkvæmt greiningunni 25,1 króna á hlut en útboðsgengið er á bilinu 28,8 til 33,3 krónur.

Lokað hlutafjárútboð fyrir stofnana- og fagfjárfesta á 40% hlut í Vodafone fer fram 3. desember næstkomandi. Dagana 4. til 6. desember mun seljandinn, Framtakssjóður Íslands, bjóða til sölu 10% hlut í almennu útboði. Ef eftirspurn verður næg verð- ur 10% hlutafjár seld til viðbótar.

Þá kom fram í Fréttablaðinu í nóvember að forstjóri og framkvæmdastjórar Vodafone munu geta öðlast tilkall til kaupaukagreiðslu á grundvelli ráðningarsamninga sinna.

Réttur þeirra er tengdur því hversu vel tekst að halda áætlun um rekstrarhagnað fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta. Ef frávik verða neikvæð fellur rétturinn niður.

Þá segir í greiningu IFS að stjórn félagsins hefur ekki markað fyrirtækinu arðgreiðslustefnu sem fjárfestar geta metið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×