Viðskipti innlent

Vonast eftir sátt um skatt á gistiheimili

Höskuldur Kári Schram skrifar
Katrín Júlíusdóttir, fjármálaráðherra, segir að mögulega þurfi að beita niðurskurði ef ekki verður fallist á hækkun virðisaukaskatts á hótel- og gistiheimili. Hún á von því hægt verði að ná sátt um málið.

Virðisaukaskattur á hótel og gistiheimil hækkar úr sjö prósentum í 14 samkvæmt tillögu fjármálaráðherra en upphaflega átti að hækka skattinn upp í 25,5 prósent. Gert er ráð fyrir því að skatturinn skili rúmum tveimur hálfum milljarði í ríkiskassann.

Breytingin á taka gildi næsta haust en aðilar ferðaþjónstunnar hafa lagt áherslu á að allar hækkanir á sköttum séu gerðar með að minnsta kosti 20 mánaða fyrirvara.

Róbert Marshall, þingmaður, tekur undir sjónarmið ferðaþjónustunnar og er enginn meirihluti fyrir málinu á Alþingi.

Fjármálaráðherra vonast til þess að hægt verði að ná sátt í málinu.

En ef ekki tekst að afgreiða þessa skattahækkun, hvaða aðrar leiðir eru í stöðunni fyrir ríkið að mæta þá útgjöldunum?

„Það er spurning hvort að við skoðum að taka útgjöldin niður á móti. En þetta munum við fara yfir vandlega næstu daga. Ég efast ekki um að við munum ná lendingu í málinu," sagði Katrín.

Þannig að þú ert að tala um að það þurfi að skera niður ef ekki tekst að afgreiða þessa skattahækkun?

„Það er einn möguleiki í stöðunni. Ég ætla ekki að fara að úttala mig um það eða semja um nein mál í fjölmiðlum. Ég ætla bara að tala við mína félaga í þinginu, sama í hvaða flokkum þeir eru. Ég hef enga trú á öðru en að við munum ná lendingu í málinu áður en yfir lýkur," svaraði Katrín.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×