Viðskipti innlent

Bankarnir högnuðust um 44 milljarða

Magnús Halldórsson skrifar
Hagnaður bankanna á fyrstu níu mánuðum ársins nam meira en 44 milljörðum króna. Bankastjóri Íslandsbanka segir að að efnahagslífið og bankarnir séu enn að glíma við erfiðleika sem rekja megi til hrunsins.

Á þeim ríflega fjórum árum sem liðin eru frá hruni fjármálakerfisins hefur rekstur hinna endurreistu banka smátt og smátt verið að styrkjast, enn nokkur óvissa er þó enn fyrir hendi, einkum þegar kemur að gengistryggðum lánum og vanskilum, sem enn eru mun hærri hér á landi heldur en flestum löndum sem við berum okkur í saman við.

Á fyrstu níu mánuðum ársins, hagnaðist Arion banki um 14,5 milljarða, Landsbankinn um 13,5 milljarða og Íslandsbanki um 16,2 milljarða. Samtals nemur hagnaðurinn 44,2 milljörðum króna, eða sem nemur 138 þúsund krónum á hvern Íslending.

Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, segir að bankakerfið glími enn við erfiðleika er tengist hruninu og endurreisn bankakerfisins í kjölfarið, enn hefðbundin bankastarfsemi sé þó að styrkjast smám saman. Eigið fé bankakerfisins, það er eignir umfram skuldbindingar, nemur nú 480 milljörðum króna, en Birna segir hagnaðinn í hlutfalli við þá stöðu ekki vera óeðlilega mikinn.

Hið endurreista bankakerfi er margfalt minna en það sem hrundi til grunna í október 2008, heildareignir bankanna nema nú tæplega þrjú þúsund milljörðum króna, eða sem nemur tæplega tvisvar sinnum árlegri landsframleiðslu. Fyrir hrunið var það eitt helsta vandamála íslensks efnahagslífs, en þá var stærðin tíu sinnum árleg landsframleiðsla.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×