Viðskipti innlent

Skúli Mogensen: Erum búnir að flörta svolítið lengi

Skúli Mogensen.
Skúli Mogensen.
„Það er óhætt að segja að við séum búnir að „flörta" svolítið lengi," svarar Skúli Mogensen, forstjóri og eigandi WOW air sem keypti rekstur Iceland Express en um það var tilkynnt í dag. Í viðtali við Reykjavík síðdegis segir Skúli að eftir þetta „daður" á milli félaganna um einhverskonar samruna eða kaup, hafi forsvarsmenn fyrirtækjanna sest niður í síðustu viku og hlutirnir hafi gerst hratt í framhaldinu.

WOW air er að taka yfir rekstur og skuldbindingar Iceland Express en Skúli segir að þessi viðskipti ættu að tryggja það að engin röskun verði hjá þeim viðskiptavinum Iceland Express sem höfðu þegar keypt ferðir hjá fyrirtækinu.

Skúli segir ennfremur að mikil samkeppni hafi verið á milli félaganna tveggja. Hann segir stækkun WOW air nú tryggja félaginu ákveðna lágmarksstærð sem Skúli telur hentuga til þess að bjóða bæði upp á lægra verð og góða þjónustu.

En það er óhjákvæmilegt að uppsagnir verði hjá Iceland Express. Skúli segist þó vonast til þess að sem flestir haldi vinnu sinni, og vitnar til þess að Iceland Express hafi verið vel rekið í sumar, og hann vilji nýta þá þekkingu áfram.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.