Viðskipti innlent

Vodafone undirbýr skráningu í Kauphöllina

Ómar Svavarsson, forstjóri Vodafone
Ómar Svavarsson, forstjóri Vodafone
Vodafone á Íslandi hefur ráðið Fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka til að vinna að undirbúningi skráningar Vodafone í Kauphöllina á Íslandi.

Í tilkynningu segir að í tengslum við fyrirhugaða skráningu er gert ráð fyrir að fram fari almennt hlutafjárútboð þar sem fjárfestum og almenningi gefst kostur á að skrá sig fyrir hlutum í félaginu. Markmiðið með skráningunni er að tryggja almenna og góða dreifingu á eignarhaldi félagsins og gefa fjárfestum kost á að fjárfesta í öflugu félagi á sviði fjarskipta.

Samhliða hefur verið samið um að Íslandsbanki annist sölu á þeim bréfum Framtakssjóðs Íslands (FSÍ) sem seld verða í útboðinu, en sjóðurinn er aðaleigandi Vodafone í dag.

Leitað var tilboða meðal þeirra aðila hér á landi sem veita ráðgjöf um skráningu á hlutabréfamarkað og var í kjölfarið ákveðið að ganga til viðræðna við Fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka um að taka að sér umsjón með skráningunni. Sérfræðingar Fyrirtækjaráðgjafar Íslandsbanka hafa langa reynslu af því að vinna með fyrirtækjum við hlutafjárútboð og skráningar, bæði hér heima og erlendis. Stefnt er að skráningu félagsins fyrir árslok 2012.

„Við erum afar ánægð að ganga til samstarfs við Íslandsbanka um skráningu félagsins. Framundan eru spennandi tímar fyrir Vodafone. Fyrirtækið er vel í stakk búið til skráningar á hlutabréfamarkað og tímapunkturinn er réttur til að fá fleiri fjárfesta að fyrirtækinu. Stjórnendur og starfsfólk Vodafone hlakka til að takast á við þetta verkefni. Skráningu á hlutabréfamarkað fylgir mikil ábyrgð en ég er sannfærður um að þetta skref er rökrétt fyrir áframhaldandi vöxt og uppbyggingu Vodafone á Íslandi," segir Ómar Svavarsson, forstjóri Vodafone í tilkynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×