Tveir stórleikir fóru fram í NBA-deildinni. Liðin sem kepptu um titilinn í fyrra mættust í Miami og Derek Fisher snéri aftur til Los Angeles með Oklahoma.
Leikurinn í LA var spennandi og skemmtilegur en Russell Westbrook hjá Oklahoma afgreiddi dæmið í þriðja leikhluta er hann skoraði 17 af 36 stigum sínum í leiknum. Kobe Bryant að sama skapi var ískaldur í liði Lakers.
Áhorfendur í LA tóku vel á móti Fisher og stóðu upp fyrir honum er hann yfirgaf völlinn undir lokin. Hann skoraði sjö stig í leiknum.
Eftir tvo tapleiki í röð komst Miami Heat aftur á sigurbraut gegn meisturum Dallas sem eru heillum horfnir sem fyrr. LeBron James og Chris Bosh skoruðu báðir 19 stig fyrir Miami og Dwyane Wade skoraði 16.
Dirk Nowitzki var bestur í liði Dallas með 25 stig en Dallas gekk ekkert að eiga við vörn Miami í leiknum.
Úrslit:
Indiana-Washington 93-89
Miami-Dallas 106-85
Portland-New Orleans 99-93
LA Lakers-Oklahoma 93-102
