Handbolti

Umfjöllun og viðtöl: Ísland - Sviss 31:16

Stefán Hirst Friðriksson í Vodafone-höllinni skrifar
Arna Sif skorar af línunni.
Arna Sif skorar af línunni. Mynd /Stefán
Íslenska kvennalandsliðið í handknattleik vann mikilvægan sigur á Sviss í undankeppni Evrópumótsins í Vodafone-höllinni í dag. Eftir jafnar upphafsmínútur stungu íslensku stelpurnar af og unnu stórsigur 31-16.

Leikurinn fór hægt af stað og var nokkuð jafnræði með liðunum á upphafsmínútunum. Íslensku stelpurnar voru að spila óvenju illa í upphafi leiks og var það aðallega Guðný Jenný Ásmundsdóttir, markvörður liðsins, sem var að standa fyrir sínu.

Það var ekki fyrr en um miðjan hálfleikinn sem stelpurnar sýndu svo loks sitt rétta andlit. Dagný Skúladóttir kom þeim í þriggja marka forystu, 6-3 þegar hálfleikurinn var rúmlega hálfnaður. Á þessum tímapunkti small vörnin í liðinu og svissneska liðið komst lítið áleiðis gegn henni.

Íslendingar héldu áfram að bæta við forskot sitt og voru þær komnar með sjö marka forystu þegar tvær mínútur voru eftir af hálfleiknum. Svissneska liðinu tókst að skora síðasta mark hálfleiksins og staðan því 15-9, Íslendingum í hag í hálfleik.

Síðari hálfleikurinn fór af stað eins og sá fyrri endaði og voru íslensku stelpurnar með öll völd á vellinum. Þær voru komnar í tólf marka forystu, 23-11 þegar seinni hálfleikurinn var hálfnaður.

Svissnesku stúlkurnar svöruðu lítillega fyrir sig á næstu mínútum en Íslendingar voru ekki lengi að taka fulla stjórn á leiknum aftur. Lokamínúturnar voru þægilegar fyrir okkar stelpur sem héldu uppi góðri vörn og skoruðu hvert hraðaupphlaupsmarkið á fætur öðru. Auðveldur fimmtán marka sigur, 31-16 því staðreynd.

Íslenska liðið hefur oft spilað betur og voru þær nokkuð lengi í gang í leiknum. Gæði svissneska liðsins eru lítil og var þetta í rauninni algjör skyldusigur. Markvarslan var fín í leiknum ásamt þvi að vörn íslenska liðsins hélt vel og sköpuðust mörg hraðaupphlaupsmörk í kjölfarið af henni.

Stella Sigurðardóttir og Karen Knútsdóttir fóru fyrir stelpunum í sóknarleiknum en það komu alls mörk frá þrettán mismunandi leikmönnum liðsins í leiknum.

Íslensku stelpurnar þurfa nú að vinna síðustu tvo leiki sína í riðlinum til þess að eiga möguleika á að komast í lokakeppnina.

Ágúst Jóhannsson: Ekki oft sem við vinnum fimmtán marka sigur

„Þetta var góður sigur hérna í dag. Það er ekki á hverjum degi sem við vinnum fimmtán marka sigur þannig að ég er að sjálfsögðu ánægður með það. Eg var virkilega ánægður með vörnina og markvörsluna í leiknum. Við vorum að gera aðeins of mikið af mistökum í fyrri hálfleiknum en það lagaðist í þeim seinni og unnum við að lokum örrugan sigur," sagði Ágúst.

„Það eru núna tveir mánuðir í næsta leik þegar við fáum Spánverja heim í höllina. Það verður virkilega erfitt en ef við ætlum okkur að komast í lokakeppnina verðum við að klára þann leik," bætti Ágúst Jóhannsson, landsliðsþjálfari við í leikslok.

Stella Sigurðardóttir: Stefnan sett á stórmót

„Við vorum lengi í gang í dag. Fyrstu fimmtán mínúturnar voru svolítið erfiðar en þetta hafðist að lokum og unnum við glæsilegan sigur. Vörnin var virkilega góð í leiknum og erum við bara sáttar við þennan leik," sagði Stella.

„Við höfum farið núna á tvö stórmót í röð og að sjálfsögðu stefnan sett á að komast upp úr þessum riðli. Við erum orðnar það góðar að við ætlum að sýna fólki að við séum komnar til að vera á þessum stórmótum. Við eigum tvö sterk lið eftir en við höfum trú á okkur." sagði Stella Sigurðardóttir, leikmaður Íslands í lok leiks.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×