Viðskipti innlent

"Kynnt sú fyrirætlan stjórnar FME að segja þér upp störfum"

Gunnar Þ. Andersen. Stjórn FME kynnti honum uppsögn frá og með næstu mánaðarmótum í boðsendu bréfi sl. föstudag, en virðist nú vera að bakka með þá ákvörðun.
Gunnar Þ. Andersen. Stjórn FME kynnti honum uppsögn frá og með næstu mánaðarmótum í boðsendu bréfi sl. föstudag, en virðist nú vera að bakka með þá ákvörðun.
Í bréfi frá stjórn Fjármálaeftirlitsins sem Gunnar Þ. Andersen forstjóri stofnunarinnar fékk boðsent til sín sl. föstudag segir: „(E)r þér með þessu bréfi kynnt sú fyrirætlan stjórnar FME að segja þér upp störfum sem forstjora stofnunarinnar. Uppsögnin er með sex mánaða fyrirvara frá næstu mánaðamótum."

Svo segir í bréfinu, sem aldrei hefur birst áður, að það sé jafnframt fyrirætlan stjórnar að lýsa því yfir að „ekki verði óskað eftir vinnuframlagi þínu á uppsagnartímanum."

Bréfið er undirritað af Aðalsteini Leifssyni, stjórnarformanni FME og stjórnarmönnunum Ingibjörgu Þorsteinsdóttur og Arnóri Sighvatssyni, aðstoðarseðlabankastjóra.

Orðalag í bréfinu er athyglisvert fyrir þær sakir að annað hljóð virtist vera komið í strokkinn sl. sunnudagskvöld, því á mánudag sagði Aðalsteinn Leifsson í samtali við Fréttablaðið: „Það hefur ekki verið tekin ákvörðun um að segja Gunnari upp störfum og ég veit ekki hvort sú ákvörðun verði tekin."

Segja að Gunnar hafi villt um fyrir stofnuninni

Í boðsenda bréfinu kemur fram að grundvöllur hinnar fyrirhuguðu ákvörðunar sé að stjórn telji ljóst að forsendur fyrir áframhaldandi ráðningu Gunnars séu brostnar. Síðan segir: „Ljóst er orðið af því sem fram hefur komið af ítarlegum rannsóknum á aðkomu þinni af (sic) málefnum Landsbankans á árinu 2001 að þú hefur að mati stjórnar FME átt þátt í aðgerðum sem voru til þess fallnar að villa um fyrir stofnuninni við eftirlit hennar með málefnum bankans."

Þarna er stjórnin að vitna til bréfs sem sent FME árið 2001, þegar Gunnar var framkvæmdastjóri alþjóða- og fjármálasviðs Landsbankans, eins og komið hefur fram, en í álitsgerð Ástráðs Haraldssonar og Ásbjarnar Björnssonar, segir að „í ljósi þekkingar sinnar og stöðu innan Landsbankans hefði Gunnar Þ. Andersen mátt vita að svar bankans var ófullnægjandi og beinlínis villandi."

Í álitsgerð sinni segja þeir Ástráður og Ásbjörn hins vegar jafnframt: „Við tökum undir þá niðurstöðu Andra Árnasonar að gögn málsins beri ekki með sér neitt sem bendi til þess að Gunnar Þ. Andersen hafi brotið lög með aðkomu sinni að skipulagningu á aflandsstarfsemi Landsbankans og stjórnarsetu í félögunum NBI Holdings Ltd. og LB Hold-ing Ltd. (...)

„Ástæðulaust er því að draga í efa niðurstöðu Andra Árnasonar um hæfi Gunnars Þ. Andersen að lögum til að gegna skyldum sem forstjóri Fjármálaeftirlitsins á grundvelli þessara gagna."

Síðan segir í álitsgerð þeirra að engu að síður sé það mat þeirra að fram hafi komið upplýsingar um atvik sem séu til þess fallnar að kasta rýrð á hæfi Gunnars til að gegna starfi forstjóra Fjármálaeftirlitsins.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×