Handbolti

AG komið í úrslitaleikinn | Lenti í smá vandræðum með Ajax

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arnór Atlason skoraði fimm mörk í dag.
Arnór Atlason skoraði fimm mörk í dag. Mynd/AFP
AG Kaupmannahöfn tryggði sér sæti í bikarúrslitaleiknum í danska handboltanum með 29-25 sigri á b-deildarliði Ajax frá Kaupmannahöfn í undanúrslitaleiknum sem fram fór í Álaborg í dag. AG mætir annaðhvort Nordsjælland eða Aalborg í úrslitaleiknum á morgun.

AG lenti óvænt í smá vandræðum með Ajax-liðið en vann að lokum nokkuð öruggan sigur. Niclas Ekberg var markahæstur með sex mörk en þeir Guðjón Valur Sigurðsson, Arnór Atlason og Mikkel Hansen skoruðu allir fimm mörk. Ólafur Stefánsson skoraði eitt mark en Sborri Steinn Guðjónsson komst ekki á blað.

Ajax-liðið byrjaði leikinn vel og komst í 3-0 og 5-1. AG tók þá leikhlé og sendi stórstjörnur eins og Mikkel Hansen og Guðjón Val Sigurðsson inn á völlinni.

AG minnkaði muninn strax og Guðjón Valur jafnaði loks metin í 8-8 með sínu þriðja marki á stuttum tíma.

Ajax komst aftur yfir í 10-11 en þá komu þrjú mörk AG í röð og AG var á endanum með fjögurra marka forskot í hálfleik, 17-13, eftir að Mikkel Hansen endaði hálfleikinn með tveimur flottum mörkum.

Guðjón Valur skoraði fimm mörk í fyrri hálfleiknum og þeir Arnór Atlason og Mikkel Hansen voru með þrjú mörk hvor.

AG náði sjö marka forskoti í upphafi seinni hálfleiksins, 23-16, en Ajax gafst ekki upp og náði að hanga inn í leiknum. Munurinn var þó aldrei minni en fjögur mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×