Handbolti

Íslenskur eftirlitsmaður á Íslendingaslag í Evrópukeppni félagsliða

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðmundur Guðmundsson, þjálfar Rhein-Neckar Löwen.
Guðmundur Guðmundsson, þjálfar Rhein-Neckar Löwen. Mynd/Nordic Photos/Bongarts
Handknattsleikssambandið hefur sent frá sér yfirlit yfir þá dómara og eftirlitsmenn sem hafa fengið verkefni erlendis á næstu vikum og þar er nóg að taka. Tvö dómarapör og fimm eftirlitsmenn verða á ferðinni á næstunni.

Mesta athygli vekur verkefni Ólafs Arnar Haraldssonar. Ólafur Örn verður nefnilega eftirlitsmaður á síðari leik Rhein-Neckar Löwen og Eskilstuna Guif í 16 liða úrslitum Evrópukeppni félagsliða karla en leikið verður í Mannheim í Þýskalandi laugardaginn 18.febrúar.

Þetta er sannkallaður Íslendingaslagur því Íslendingar þjálfa bæði lið og íslenskir leikmenn spila með báðum liðum. Guðmundur Guðmundsson þjálfar Rhein-Neckar Löwen og Róbert Gunnarsson spilar með liðinu. Kristján Andrésson þjálfar lið Guif og bróðir hans Haukur Andrésson spilar með liðinu.

Ingvar Guðjónsson og Jónas Elíasson dæmdu í gær undanúrslitaleik Sádí Arabíu og Kóreu á Asíu Meistaramóti karla en sá leikur endaði með eins marks sigur Kóreu 27-26.

Gunnar K. Gunnarsson var í gær eftirlitsmaður á leik FC Midtjylland og Larvik í Meistarakeppni Evrópu kvenna en leikið var í Ikast í Danmörku.

Ingvar og Jónas munu dæma leik BM Atletico Madrid og Bjerringbro-Silkeborg í Meistaradeild Evrópu karla en leikið verður í Madrid á Spáni laugardaginn 11.febrúar.

Guðjón L. Sigurðsson verður eftirlitsmaður á síðari leik Team Tvis Holstebro og Team Esbjerg í Evrópukeppni félagsliða kvenna en leikið verður í Holstebro laugardaginn 11.febrúar

Kristján Halldórsson verður eftirlitsmaður á fyrri leik Viborg HK og IK Savehof í Evrópukeppni bikarhafa kvenna en leikið verður í Viborg í Danmörku laugardaginn 11.febrúar.

Helga Magnúsdóttir verður eftirlitsmaður Larvik og Grupu Asfi Itxako Navarra í Meistaradeild Evópu kvenna en leikið verður í Larvik í Noregi sunnudaginn 12.febrúar.

Arnar Sigurjónsson og Svavar Pétursson munu dæma leik OIF Arendal og Vfl Gummersbach í Evrópukeppni bikarhafa karla en leikið verður Nedenes í Noregi laugardaginn 18.febrúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×