Körfubolti

Bárður: Vill fá hálfan Skagafjörðinn í höllina

Stefán Árni Pálsson skrifar
Bárður Eyþórsson
Bárður Eyþórsson Mynd/Anton

„Við erum bara í skýjunum eftir þennan leik," sagði Bárður Eyþórsson, þjálfari Tindastóls, eftir sigurinn á KR í undanúrslitum Powerade-bikarsins í kvöld. Tindastóll vann leikinn 89-86 og eru því komnir í úrslitaleikinn þar sem þeir mæta Keflvíkingum 18. febrúar.

„Við vorum yfir allan leikinn og héldum þeim alltaf rétt fyrir aftan okkur. Þeir náðu einu sinni að jafna leikinn en mér fannst við hafa undirtökum nánast allan tímann".

„Strákarnir hafa bara svarað kallinum að undanförnu og eru að leika alveg virkilega vel. Það hefur orðið ákveðin hugafarsbreyting innan liðsins sem er að skila árangri".

„Heimavöllurinn var auðvita alveg frábær í kvöld og hjálpaði okkur gríðarlega. Ég býst við hálfum Skagafirðinum í höllina eftir tvær vikur".

„Við óttumst alls ekkert Keflvíkinga en við þurfum samt sem áður að eiga okkar allra besta leik gegn þeim. Þeir gjörsamlega rassskelltu okkur í síðasta leik, en við erum samt ekkert að fara í þennan úrslitaleik til að vera einhverjir áhorfendur."
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.