Handbolti

Kiel staðfestir komu Guðjóns Vals

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mynd/Vilhelm
Guðjón Valur Sigurðsson hefur gert tveggja ára samning við þýska stórliðið Kiel en Klaus Elwardt, framkvæmdarstjóri félagsins, hefur staðfest komu hans.

„Hann var efstur á óskalista okkar og við vorum efstir á óskalista hans. Þetta passar því vel saman," sagði Elwardt við dagblaðið Kieler Nachrichten.

Guðjón Valur er nú á mála hjá AG í Kaupmannahöfn en sá samningur rennur út í sumar. Fyrir helgi var greint frá því að Guðjón Valur væri á leið til Kiel en sjálfur vildi hann ekki staðfesta að samkomulagið væri í höfn.

Hann verður 33 ára í sumar en Elwardt hefur ekki áhyggjur af því. „Það eru bara örfáir leikmenn sem geta haldið í við Guðjón, þó svo að þeir séu tíu árum yngri en hann."

Hann kemur í stað Svíans Henrik Lundström sem hefur verið hjá Kiel í átta ár. Hann er nú aftur á leið til Svíþjóðar og mun spila með Redbergslid sem er hans æskufélag.

Guðjón Valur mun deila stöðu vinstri hornamanns hjá Kiel með þýska landsliðsmanninum Dominik Klein en þjálfari liðsins er Alfreð Gíslason sem þekkir Guðjón Val vel eftir að hafa þjálfað hann bæði hjá Gummersbach og íslenska landsliðinu.

Aron Pálmarsson er einnig á mála hjá Kiel.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×