Handbolti

Onesta: Kemur í ljós á Ólympíuleikunum hvort velgengnin sé á enda

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Onesta hefur náð mögnuðum árangri með franska landsliðið undanfarin ár.
Onesta hefur náð mögnuðum árangri með franska landsliðið undanfarin ár. Nordic Photos / Getty Images
Claude Onesta, þjálfari franska landsliðsins í handknattleik, var ósáttur við frammistöðu sinna manna í 29-22 tapi gegn Króötum í gær. Onesta sagði liðið eiga í erfiðleikum en það kæmi ekki í ljós fyrr en á Ólympíuleikunum í London í sumar hvort velgengni gullaldarliðs Frakka væri á enda.

Frakkar héldu í við Króata fram í seinni hálfleik í gær en þá skildu leiðir.

"Í 45 mínútur sáum við frábæran handboltaleik tveggja liða. Í 60 mínútur sáum við frábært króatsíkt lið. Þeir verðskulduðu sigurinn og eins og þeir spiluðu í dag sé ég ekkert lið stöðva þá. Við erum ekki að spila eins og við getum best í augnablikinu. Það kemur í ljós á Ólympíuleikunum hvort komið sé að endalokum hjá þessari kynslóð," sagði Onesta en franska liðið hefur verið því sem næst ósigrandi undanfarin ár.

Omeyer: Misstum sjálfstraustið

Thierry Omeyer, markvörður Frakka, var sömuleiðis vonsvikinn með að Frakkar hefðu misst af sæti í undanúrslitum. Frakkar höfðu komist í undanúrslit á öllum stórmótum í handknattleik síðan á Ólympíuleikunum í Aþenu árið 2004.

"Við höfum ekki náð okkur á strik allt frá upphafi keppninnar. Við töpuðum leikjunum gegn Spáni og Ungverjum með fáum mörkum þrátt fyrir að spila illa. Við töpuðum ekki aðeins stigum í þessum leikjum heldur einnig sjálfstraustinu. Það gerði okkur erfitt fyrir í framhaldinu," sagði markvörðurinn magnaði.

Fernandez: Einstakur árangur undanfarin ár

Fyrirliði Frakka, Jerome Fernandez, sagði að öll velgengni tæki enda einhvern daginn.

"Sigurganga endar á einhverjum tímapunkti. Það er sorglegt og erfitt að sætta sig við. En erfiðleikarnir sem við höfum staðið frammi fyrir á Evrópumótinu sýna einfaldlega hversu einstakur árangur okkar undanfarin fjögur ár er," sagði Fernandez.

Íslendingar mæta Frökkum í lokaumferð milliriðilsins í dag og hefst leikurinn klukkan 15:10.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×