Handbolti

Makedónía vann Serbíu | Jafnt hjá Ungverjalandi og Króatíu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Úr leik Serbíu og Makedóníu.
Úr leik Serbíu og Makedóníu. Nordic Photos / AFP
Það verða Slóvenía og Makedónía sem munu spila um fimmta sætið á EM í Serbíu og þar með mögulega um sæti í undankeppni Ólympíuleikanna í Lundúnum.

Ungverjaland hefði með sigri á Króatíu í kvöld getað hoppað upp fyrir Slóvena í milliriðli 2 og þar með spilað um fimmta sætið. Ungverjar þurftu þó að sætta sig við jafntefli gegn Króatíu sem var öruggt með annað sæti riðilsins fyrir leikinn. Lokatölur voru 24-24.

Makedónía tryggði sér þriðja sætið í milliriðli 1 með sigri á Serbum, 22-19. Serbar voru sömuleiðis búnir að vinna riðilinn og fara því áfram í undanúrslitin þar sem þeir mæta einmitt Króötum.

Makedónía, Pólland og Þýskaland enduðu öll með fimm stig í milliriðli 1 en Makedónía er með besta árangurinn í innbyrðisviðureignum liðanna og hafnar þar með í þriðja sæti.

Gabor Csaszar fór hamförum fyrir Ungverja og skoraði fjórtán mörk í leiknum gegn Króötum. Hann skoraði til að mynda fyrstu sex mörk sinna manna í seinni hálfleik en það var eftir rúmlega nítján mínútna bið eftir að einhver annar Ungverji kæmist á blað.

Ungverjar höfðu forystu í hálfleik, 13-12, eftir að hafa haft undirtökin lengst af í fyrri hálfleik.

Króatar byrjuðu svo betur í þeim síðari og komust yfir en svo var jafnt á öllum tölum síðustu 20 mínútur leiksins. Ekkert var skorað síðustu tvær mínúturnar og niðurstaðan jafntefli.

Makedónía var yfirleitt skrefi framar gegn Serbum í dag. Þó var jafnt þegar sjö mínútur voru eftir, 19-19, en Makedónía skoraði síðustu þrjú mörk leiksins og tryggði sér sigurinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×