Handbolti

Ummæli Hedin í Noregi vekja reiði

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Robert Hedin.
Robert Hedin. Mynd/Vilhelm
Svíinn Robert Hedin, landsliðsþjálfari Noregs í handbolta, hefur verið gagnrýndur fyrir að sinna öðrum þjálfarastörfum samhliða því að þjálfa landsliðið.

Hedin er þjálfari danska úrvalsdeildarfélagsins Álaborg en undir hans stjórn tókst norska liðinu ekki að komast upp úr sínum riðli á EM í handbolta sem nú stendur yfir í Serbíu.

Sjálfur hefur Hedin gagnrýnt norsk félög og segir leikmenn norskra liða ekki æfa nógu mikið. Ummælin féllu í grýttan jarðveg og segir Geir Oustorp, þjálfari Drammen, að þau hafi komið úr verstu átt.

„Það reitir mann til reiði að heyra hann tala svona illa um okkar félög og okkar starf. Mér finnst það ekki í verkahring landsliðsþjálfara," sagði Oustorp við norska fjölmiðla.

„Það getur vel verið að við þurfum að æfa meira en við verðum að vera jákvæðir og glaðir. Ég er orðinn þreyttur á að heyra um hversu lélegir við erum."

Oustorp notaði tækifærið og ítrekaði að hann væri mótfallinn því að landsliðsþjálfarinn væri líka í öðru starfi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×