Handbolti

Lazarov getur slegið met Ólafs í dag

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kiril Lazarov er gríðaröflug skytta.
Kiril Lazarov er gríðaröflug skytta. Nordic Photos / Getty Images
Makedóníumaðurinn Kiril Lazarov er mikill markaskorari og getur í dag slegið met markamet Ólafs Stefánssonar á Evrópumeistaramótinu í handbolta.

Ólafur setti metið þegar hann skoraði 58 mörk á Evrópumeistaramótinu í Svíþjóð árið 2002 en þá fór íslenska liðið alla leið í undanúrslit og spilaði um bronsið.

Enginn annar leikmaður hefur skorað fleiri mörk á einu móti frá upphafi en Lazarov er nú kominn með 53 mörk. Makedónía mætir Slóveníu klukkan 14.15 í leik um fimmta sæti mótsins í dag og verður að teljast nokkuð líklegt að Lazarov slái metið.

En Lazarov ætlar ekki að hugsa um metið. Madedónía mun með sigri tryggja sér þátttökurétt í undankeppni Ólympíuleikanna og er það sem mestu máli skiptir.

„Það skiptir ekki máli hversu mörg mörk ég skora," sagði Lazarov. „Það eina sem skiptir máli er liðið og að það nái árangri. Draumur okkar er að fara til Lundúna og yrði það mikill og góður árangur fyrir okkar litla land."

Markahæstir á EM frá upphafi:

1994: Vassili Kudinov, Rússlandi 50 mörk

1996: Thomas Knorr, Þýskalandi 41

1998: Jan Filip, Tékklandi 48

2000: Oleg Veleky, Úkraínu 46

2002: Ólafur Stefánsson, Íslandi 58

2004: Mirza Dzomba, Króatíu 46

2006: Siarhei Rutenka, Slóvenía 51

2008: Ivano Balic, Króatíu 44

2010: Filip Jicha, Tékklandi 53




Fleiri fréttir

Sjá meira


×