Handbolti

Makedónía tryggði sér fimmta sætið og sæti í ÓL-umspilinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Makedóníumenn fagna.
Makedóníumenn fagna. Mynd/Nordic Photos/Getty
Makedóníumenn tryggðu sér fimmta sæti á EM í handbolta í Serbíu með því að vinna eins marka sigur á Slóvenum, 28-27, í leiknum um 5. sætið á mótinu. Sætið gefur Makedóníu líka sæti í umspili Ólympíuleikanna í vor en Slóvenar gætu einnig komist þangað verði Serbar Evrópumeistarar á sunnudaginn.

Kiril Lazarov skoraði átta mörk fyrir Makedóníumenn og tryggði sér bæði markakóngstitilinn og setti nýtt markamet í úrslitakeppni EM. Hann skoraði 61 mark í mótinu og bætti markamet Ólafs Stefánssonar frá EM 2002 um þrjú mörk. Stojance Stoilov skoraði 6 mörk og hinn 39 ára gamli Stevce Alusevski var með 4 mörk.

Jure Dolenec skoraði 7 mörk fyrir Slóvena og Luka Zvizej var með 6 mörk. Primoz Prost átti frábæra innkomu í markið undir lokin og varði 6 af 9 skotum sem komu á hann.

Makedónía náði frumkvæðinu strax í upphafi, komst í 5-2 og 9-5 og var síðan með fjögurra marka forskot í hálfleik, 16-12. Makedónía skoraði síðan fyrsta mark seinni hálfleiksins og var því komið með fimm marka forskot.

Slóvenska liðið vaknaði þá af værum blundi, vann næstu tíu mínútur 8-1 og var allt í einu komið tveimur mörkum yfir, 20-18. Makedóníumenn voru hinsvegar snöggir að snúa leiknum og voru aftur komnir með þriggja marka forskot, 25-22, þegar tæpar tólf mínútur voru eftir af leiknum.

Kiril Lazarov skoraði hvert markið á fætur öðru á þessum kafla og náði þarna að bæta tíu ára markamet Ólafs Stefánssonar í úrslitakeppni EM.

Slóvenar komu muninum niður í eitt mark. 26-25, þegar sex mínútur voru eftir og lokamínúturnar voru æsispennandi. Slóvenar náði aftur á móti aldrei að jafna leikinn og Borko Ristovski tryggði Makedóníumönnum sigurinn með því að verja lokaskot Slóvenana í leiknum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×