Handbolti

Balic og Vukovic tæpir vegna meiðsla | EM í hættu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ivano Balic gæti misst af EM vegna meiðsla.
Ivano Balic gæti misst af EM vegna meiðsla. Nordic Photos / Getty Images
Þetta verða að teljast fín tíðindi fyrir strákana okkar í íslenska landsliðinu - Króatarnir Ivano Balic og Drago Vukovic eru báðir tæpir fyrir EM í handbolta vegna meiðsla.

Ísland er einmitt með Króatíu í riðli og þessi lið mætast í fyrsta leik á mánudagskvöldið. Balic er öllum vel kunnugur enda hefur hann verið einn besti handboltamaður heims um áraraðir.

Þá er Drago Vukovic öflug skytta sem hefur gegnt lykilhlutverki í sterku liði Króata sem hafa náð frábærum árangri á stórmótum síðustu árin og unnið til fjölda verðlauna.

„Meiðsli þeirra eru allt annað en smávægileg en við erum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að koma þeim aftur til heilsu áður en mótið hefst," sagði landsliðþjálfari Króata, Slavko Goluza.

„Batinn gengur hægt en þeir hafa sýnt gríðarlega mikinn viljastyrk til að koma sér aftur af stað í tæka tíð," bætti þjálfarinn við.

Sjálfur sagðist Vukovic vonast til þess besta. „Ég vona að ég nái leiknum gegn Íslandi því það er öflugt lið sem við höfum alltaf átt í basli með."

„Ég þekki marga leikmenn úr íslenska liðinu úr þýsku úrvalsdeildinni. Liðið spilar öfluga 6-0 vörn og hraðaupphlaupin geta verið baneitruð og fellt hvaða lið sem er."

Ísland verður einnig án lykilmanna á mótinu því Ólafur Stefánsson ætlar að nýta tímann til að ná sér góðum af meiðslum og þá er enn óvíst um þátttöku Snorra Steins Guðjónssonar.

„Ólafur er goðsögn sem hefur unnið margar orrustur fyrir Ísland. En hann hefur líka gengið í gegnum sínar lægðir og ég held að Alexander Petersson geti vel fyllt í hans skarð," sagði Vukovic.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×