Handbolti

Snorri Steinn fer ekki á EM í Serbíu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Snorri Steinn Guðjónsson.
Snorri Steinn Guðjónsson. Mynd/AFP
Snorri Steinn Guðjónsson verður ekki með íslenska landsliðinu á EM í Serbíu sem hefst um helgina og Ísland verður því bæði án Ólafs Stefánssonar og Snorra Steins á Evrópumótinu. Þetta er mikið áfall fyrir íslenska liðið enda hefur Snorri Steinn verið aðalleikstjórnandi íslenska liðsins á blómaskeiði þess síðustu ár.

Snorri Steinn tilkynnti Guðmundi Guðmundssyni, landsliðsþjálfara, að hann gæfi ekki kost á sér í þetta verkefni þar sem hann ætlaði að vera heima hjá konu sinni og nýfæddri dóttur. Guðmundur er nú þessa stundina að tilkynna landsliðshóp sinn fyrir Evrópumótið.

Arnór Atlason er þar með orðinn aðalleikstjórnandi íslenska liðsins en þeir Aron Pálmarsson og Ólafur Bjarki Ragnarsson eru líka til taks. Guðjón Valur Sigurðsson hefur líka spilað stöðu leikstjórnanda en íslenska liðið má ekki við því að missa hann úr vinstra horninu.

Snorri Steinn er búinn að vera með á síðustu sex stórmótum íslenska landsliðsins og alls á níu stórmótum frá því að hann var fyrst með á HM 2003. Snorri Steinn hefur skorað 5 mörk að meðaltali á síðustu sex stórmótum (235 mörk í 47 leikjum) en hann var með 3,2 mörk að meðaltali á HM í Svíþjóð í fyrra.

Snorri Steinn komst í úrvalslið Ólympíuleikanna 2008 þegar íslenska landsliðið vann silfur í Peking en hann skoraði þá 48 mörk í 8 leikjum eða 6 mörk að meðaltali í leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×