Viðskipti innlent

Síðustu forvöð að tilnefna til vefverðlauna SVEF

Fólkið á bak við Meniga.is, sem var valinn vefur ársins á verðlaununum í fyrra.
Fólkið á bak við Meniga.is, sem var valinn vefur ársins á verðlaununum í fyrra.
Samtök vefiðnaðarins veita árleg vefverðlaun sín í Tjarnarbíói þann 3. febrúar. Síðustu forvöð til að tilnefna vefi eru á morgun, 7. janúar, og eru þeir sem hyggjast tilnefna vefi sína hvattir að bregðast skjótt við.

„Við fáum venjulega um hundrað tilnefningar í þeim sjö flokkum sem hægt er að skrá í,“ segir Einar Gústafsson, formaður samtaka vefiðnaðarins, en tilnefningarnar fara fram vefnum svef.is.

Þeir flokkar sem hægt er að tilnefna í eru Besti sölu- og kynningarvefurinn (bæði fyrir undir og yfir 50 starfsmenn), Besti þjónustu- og upplýsingavefurinn, Besta markaðsherferðin á netinu, Besti smá- eða handtækjavefurinn, Besti afþreyingar- og/eða fréttavefurinn og Besti blog/efnistök/myndefni. Dómnefnd veitir þar að auki þrenn auka verðlaun; fyrir frumlegasta vefinn, fyrir besta útlit og viðmót og loks fyrir besta íslenska vefinn. Félagar í SVEF kjósa svo um athyglisverðasta vefinn á árinu.

Þessa dagana er einnig hægt að tilnefna einstaklinga í dómnefndina á vef SVEF. Dómnefnd er ekki kynnt fyrr en á afhendingu og má segja að hún fari huldu höfði fram að því.

Vefverðlaunin hafa verið veitt frá árinu 2000 og hafa fjölmargir þekktir vefir verið þar viðurkenndir í gegnum árin. Í fyrra var Meniga.is valinn besti vefurinn en meðal annarra sigurvegara má nefna ja.is, siminn.is, midi.is og icelandair.is.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×