Viðskipti innlent

Gistinóttum á hótelum í janúar fjölgaði um 34%

Gistinætur á hótelum í janúar s.l. voru 71.600 samanborið við 53.600 í janúar 2011. Þeim hefur því fjölgað um 34% milli ára.

Þetta kemur fram á vefsíðu Hagstofunnar. Þar segir að gistinætur erlendra gesta voru um 81% af heildarfjölda gistinátta í janúar en gistinóttum þeirra fjölgaði um 37% samanborið við janúar 2011. Á sama tíma fjölgaði gistinóttum Íslendinga um 21%.

Gistinætur á hótelum höfuðborgarsvæðisins voru 59.500 í janúar og fjölgaði um 34% frá fyrra ári. Á Norðurlandi voru 2.300 gistinætur í janúar sem er 52% aukning frá fyrra ári. Á Suðurlandi voru gistinætur 4.700 eða 44% fleiri en í janúar 2011. Á Suðurnesjum voru gistinætur 3.500 sem er 21% aukning frá fyrra ári.

Á samanlögðu svæði Vesturlands og Vestfjarða fjölgaði gistinóttum einnig milli ára, voru 900 samanborið við 800 í janúar 2011. Á Austurlandi voru gistinætur á hótelum í janúar svipaðar á milli ára eða um 800.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×