Handbolti

Tvö þúsund Danir hafa keypt miða á undanúrslitaleik Svía

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / AFP

Ákvörðun mótshaldara á HM í Svíþjóð að sænska liðið muni spila sinn undanúrslitaleik í Malmö hefur slæmar afleiðingar í för með sér fyrir fjölmarga stuðningsmenn danska handboltalandsliðsins.

Danmörk og Svíþjóð hafa bæði tryggt sér sæti í undanúrslitum keppninnar en fyrirfram var ákveðið að annar undanúrslitaleikurinn færi fram í Malmö en hinn í Kristianstad.

Nú hafa mótshaldarar ákveðið að Svíar muni spila sinn undanúrslitaleik í Malmö. Það kemur sér illa fyrir þá tvö þúsund stuðningsmenn danska liðsins sem hafa keypt sér miða á þann leik.

„Þetta er algjör katastrófa," er haft eftir einum þeirra í Ekstra Bladet í dag. „Okkur var lofað því að Danir myndu spila alla sína leiki í Malmö. En nú hafa stuðningsmennirnir verið flæmdir þaðan í burtu."

Malmö Arena tekur 12.500 áhorfendur í sæti en höllin í Kristianstad ekki nema 4500. Þeir sem eiga miða á leikinn í Malmö eru því ekki vongóðir um að geta skipt miðanum sínum fyrir miða á leikinn í Kristianstad.

Mótshaldarar hafa lofað því að koma til móts við þessa tvö þúsund Dani en enginn virðist vita hvernig. Danir vilja að báðir undanúrslitaleikirnir verða spilaðir í Malmö en það virðist ólíkleg niðurstaða.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×