Viðskipti innlent

Gjaldeyrishöft blása upp fasteignaverðið

Íslenskir fjárfestar eru farnir að sýna fasteignamarkaðnum aukinn áhuga. Þinglýstum samningum vegna fasteignakaupa hér á landi fjölgaði um 70 prósent á höfuðborgarsvæðinu fyrstu fjóra mánuði ársins miðað við sama tímabil 2010. Samkvæmt upplýsingum frá Seðlabankanum hafa útlán þó ekki aukist í samræmi við það.

Í Markaðspunktum greiningardeildar Arion banka kemur fram að þrátt fyrir aukin umsvif á fasteignamarkaðnum megi ekki greina samsvarandi aukningu í útlánum vegna íbúðakaupa.

Í Markaðspunktunum kemur jafnframt fram að þessi auknu umsvif séu ein afleiðing gjaldeyrishaftanna og að aukinn áhuga fjárfesta á fasteignakaupum megi rekja til þess að fáir aðrir fjárfestingakostir séu í boði.

Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður greiningardeildar Arion banka, segir þó að engar tölur séu til sem staðfesti þessa þróun, en þetta sé engu að síður afar líkleg skýring á þessum auknu umsvifum á markaðnum. Þó að útlán hafi lítillega verið að taka við sér séu þau ekki í takti við veltuna, sem hefur aukist um allt að 100 prósent á milli ára.

"Það hefur verið mikill kippur á síðustu mánuðum og á sama tíma höfum við séð verðið hækka," segir Ásdís. Hún segir þetta meðal annars vísbendingu um að fjársterkir einstaklingar séu að kaupa fasteignir.

Gera má ráð fyrir að þessi þróun geri almenningi erfiðara fyrir að kaupa íbúðir, sérstaklega þeim sem séu að kaupa sína fyrstu íbúð.

Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, tekur undir það að afar líklegt sé að markaðurinn sé að færast í þessa átt. "Með lækkandi vöxtum virðast vera einhver drög að því að menn séu að fara með innistæðurnar sínar út," segir hann.

Árni Páll segir að vissulega geti þetta leitt til verðþrýstings upp á við og í hagkerfi sem starfi í umhverfi gjaldeyrishafta sé alltaf hætt við eignabólum. "En þessi þrýstingur er þó að minnsta kosti byggður á raunverulegum eignum," segir Árni Páll. "Einhvers staðar verða þessir peningar að finna sér farveg. En það er auðvitað hætta á eignabólum í umhverfi gjaldeyrishafta, þegar peningamagnið í umferð eltir takmarkað magn af eignum."

Viðskiptaráðherra segir erfitt fyrir stjórnvöld að bregðast við svona þróun þegar um sé að ræða tilflutning á fjármagni á milli ólíkra eignaforma. - sv






Fleiri fréttir

Sjá meira


×