Viðskipti innlent

Skuldatryggingaálag Íslands aftur að hækka

Skuldatryggingaálag Íslands hefur hækkað aðeins í þessari viku og stendur nú í 244 punktum samkvæmt viðskiptavefnum keldan.is. Fyrir helgina stóð álagið í 232 punktum en var komið í 241 punkt í gærdag.

Eflaust er ástæðan fyrir því að álagið á Ísland hækkar aðeins í þessari viku sá að hinn mikli órói á mörkuðum undanfarna tvo daga hefur leitt til hækkana á skuldatryggingaálagi fjölda annarra ríkja í Evrópu.  Mest hefur hækkunin orðið á álagi ríkja á borð við Grikkland, Portúgal, Írland, Spán og Ítalíu.

Þrátt fyrir hækkunina er skuldatryggingaálag Íslands orðið lægra en hjá bæði Spáni og Ítalíu sem eru fjórðu og fimmtu stærstu hagkerfi Evrópu. Álagið á Ísland fór lægst í ár í 200 punkta s.l. vor.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×