Viðskipti innlent

Íslandsbanki kaupir Byr - kaupverð trúnaðarmál

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Birna Einarsdóttir er forstjóri Íslandsbanka.
Birna Einarsdóttir er forstjóri Íslandsbanka.
Íslandsbanki hefur ákveðið að leggja Byr til nýtt hlutafé og hafa fyrirtækin undirritað samkomulag þess efnis. Einnig hefur verið gert samkomulag við slitastjórn Byrs sparisjóðs og Fjármálaráðuneytið sem selja Íslandsbanka allt hlutafé sitt í Byr hf. og er gert ráð fyrir að í kjölfarið verði starfsemi Íslandsbanka og Byrs hf. sameinuð undir merkjum Íslandsbanka. Kaupverðið er trúnaðarmál, samkvæmt upplýsingum frá Íslandsbanka.

Sameiningin er háð samþykki Samkeppniseftirlits og Fjármálaeftirlits og verður starfsemi fyrirtækjanna óbreytt á meðan samþykkis er beðið. Á næstu vikum munu starfsmenn Íslandsbanka og Byrs hf. hefja undirbúning að útfærslu á sameiningu fyrirtækjanna, segir í tilkynningu frá Íslandsbanka. Í þeirri vinnu verði sjónarmið og hagsmunir viðskiptavina, starfsmanna, eigenda og eftirlitsaðila í fyrirrúmi.

Stjórnendur Byrs hf. og Íslandsbanka segja að með sameiningu fyrirtækjanna náist fram mikilvæg hagræðing á íslenskum fjármálamarkaði og að sameinað fyrirtæki verði vel í stakk búið til að veita viðskiptavinum sínum faglega og persónulega þjónustu. Sameinaður banki verður með breiðan og sterkan hóp viðskiptavina, starfsmanna og öflugt net útibúa til að þjóna þeim. Að auki verður sameinaður banki með afar sterkt eiginfjárhlutfall sem verður vel yfir 16% lágmarkskröfum FME.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×