Viðskipti innlent

Íslandsmet: Yfir 230 sækja um í tónlistarsjóð

Frá síðustu úthlutun Kraums.
Frá síðustu úthlutun Kraums.

Alls bárust 233 umsóknir í umsóknarferli Kraums tónlistarsjóðs sem lauk í síðustu viku. Aldrei fyrr hafa jafn margar umsóknir borist í umsóknarferli sjóðsins, en alls bárust 193 umsóknir í síðasta umsóknarferli - sem þá var nýtt met.

Í tilkynningu segir að hér gæti vel verið á ferð íslandsmet í umsóknarferlum tónlistartengdrar starfsemi. Til samanburðar má nefna að 82 umsóknir bárust Tónlistarsjóði Menntamálaráðuneytisins í síðasta umsóknarferli sínu, og þar bárust 132 umsóknir í ferlinu þar á undan.

Kraumur notast ekki við umsóknareyðublöð, en allar umsóknir skulu innihalda yfirlit yfir verkefnið sem sótt er um, upplýsingar um markmið þess og fjárhagsáætlun - auk þess sem mælst var til þess að hljómsveitir og listamenn skili ferilskrá og tónlist. Listamönnum og hljómsveitum var boðin aðstoð við umsókngergerðina, og var það ekki síst við gerð fjárhagsáætlana sem margar fyrirspurnir komu og ráð voru veitt.

Umsóknirnar sem borist hafa Kraumi að þessu sinni eru af ýmsum toga, og úr öllum geirum tónlistar. Flestar eru umsóknirnar eru frá hljómsveitum og listamönnum, sem sækja um stuðning og samstarf fyrir margvísleg verkefni sín á árinu. Má þar nefna tónleikhald, kynningu á verkum sínum, lagasmíðar og plötugerð, auk óhefðbundnari verkefna. Einnig er að finna umsóknir frá skipuleggjendum ýmissa viðburða, verkefnisstjóra námskeiða og verkefna sem hafa með dreifingu og kynningu á íslenskri tónlist að gera.

Kraumur tónlistarsjóður, sem var stofnaður í byrjun árs 2008 af Aurora velgerðarsjóði, hefur það meginhlutverk að efla íslenskt tónlistarlíf - fyrst og fremst með stuðningi við unga listamenn, auðvelda þeim að vinna að listsköpun sinni og koma verkum sínum á framfæri innanlands sem utan.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×