Viðskipti innlent

Hvetur banka til að hafa samband við ábyrgðarmenn

Helga Arnardóttir skrifar
Árni Helgason.
Árni Helgason.

Héraðsdómslögmaður hvetur banka og sparisjóði til að stíga fram og greina ábyrgðarmönnum lána frá því hvort gert hafi verið greiðslumat hjá lántakendum samkvæmt samkomulagi frá 2001 um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga.

Rúmlega tíu ára gamalt samkomulag milli stjórnvalda og helstu banka og sparisjóða landsins um verklagsreglur í tengslum við ábyrgðarmenn einstaklinga hefur verið nokkuð til umræðu. Í því er kveðið á um að fjármálafyrirtæki verði að meta greiðslugetu lántakanda, fari lánsupphæð yfir eina milljón króna. Greiðslumatið á að vera undirritað af ábyrgðarmanni lánsins. Hafi það ekki verið gert er hægt að fella ábyrgðina úr gildi. Lánið stendur þó óbreytt.

Stjórnvöld gerðu þetta samkomulag fyrst 1998 til að bregðast við miklum fjölda ábyrgðarmanna hér á landi. Fjöldi þeirra var mun meiri en í samanburði við hin norðurlöndin. Í skýrslu nefndar sem viðskiptaráðherra skipaði til að fara yfir framkvæmd ábyrgðarveitinga árið 1996 kom fram að um 90.000 einstaklingar yfir 18 ára aldri voru í ábyrgð fyrir fjárskuldbindingum þriðja aðila. Það voru um 47% allra Íslendinga á þessum aldri.

Í áliti nefndar um réttindi og skyldur í viðskiptum neytenda við fjármálafyrirtæki frá 2004 segir að ábyrgðarmönnum í landinu hafi fækkað frá 1996 og séu um 75.000. Ekki nýtur við nýrri upplýsinga um fjölda ábyrgðarmanna. Óljóst er hversu mörg lán gætu heyrt undir samkomulagið en þau gætu hlaupið á þúsundum.

Árni Helgason héraðsdómslögmaður vinnur að fjölda mála sem heyra undir samkomulagið. Hann hvetur bankana til að stíga fram og greina fólki frá því hvort gert hafi verið greiðslumat eða ekki.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×