Viðskipti innlent

Þorvaldur Lúðvík hættir hjá Sögu Fjárfestingarbanka

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson fráfarandi bankastjóri.
Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson fráfarandi bankastjóri.
Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson hefur sagt starfi sínu, sem forstjóri Sögu Fjárfestingarbanka, lausu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá bankanum. Þorvaldur Lúðvík hafði réttarstöðu sakbornings í rannsókn sérstaks saksóknara á hruni Kaupþings. 

Við starfi Þorvaldar tekur dr. Hersir Sigurgeirsson. Hersir starfaði áður sem framkvæmdastjóri Áhættustýringar hjá Saga Fjárfestingarbanka. Hann hefur víðtæka reynslu úr fjármálageiranum og starfaði meðal annars hjá Kaupþingi. Hersir er doktor í stærðfræði frá Stanford háskóla í Bandaríkjunum og hefur samhliða starfi sínu hjá Saga sinnt kennslu við Háskóla Íslands.

Hersir Sigurgeirsson tekur við starfi forstjóra.
Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson hefur verið forstjóri Saga Fjárfestingarbanka frá upphafi. Fram kemur í tilkynningu frá Saga Fjárfestingabanka að hann hafi tilkynnt uppsögn sína í dag og láti af störfum nú þegar, að eigin ósk.

„Ég vil fyrir hönd stjórnar þakka Þorvaldi fyrir hans störf við uppbyggingu og stofnun bankans og þann mikla árangur að halda bankanum starfandi við þær erfiðu aðstæður sem verið hafa á íslenskum fjármálamarkaði," segir Halldór Jóhannsson, stjórnarformaður Saga Fjárfestingarbanka, í fréttatilkynningu vegna málsins.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×