Viðskipti innlent

Úrskurður Hæstaréttar kostar Frjálsa marga milljarða

Nýr úrskurður Hæstaréttar í máli Tölvupóstsins ehf. gegn Frjálsa fjárfestingarbankanum (FF) kallar á margra milljarða kr. endurmat og lækkun á lánum til fyrirtækja í viðbót við það sem FF þarf að lækka lán einstaklinga vegna endurútreikninga lána þeirra.

„Nú bætast fyrirtækin við í þessu máli en við hjá Frjálsa fjárfestingarbankanum höfðum auðvitað gert ráð fyrir að úrskurður Hæstaréttar færi mögulega á þennan veg og höfum því gert viðeigandi ráðstafanir til að mæta honum," segir Magnús Pálmarsson talsmaður FF.

Í máli Magnúsar kemur fram að FF er nú að ljúka við endurútreikninga hjá þeim einstaklingum sem voru með ólögleg gengistryggð fasteignalán hjá bankanum og að þeirri vinnu verði lokið fyrir tímamörkin sem sett voru, það er næstu mánaðarmót.

„Eftir að við höfum lokið þeirri vinnu förum við í að reikna út fyrirtækjalánin sem Hæstiréttur hefur nú úrskurðað um að falli undir sama hatt og einstaklingslánin," segir Magnús. „Ég hef ekki nákvæma tölu á hvað endurútreikningur á fyrirtækjalánunum þýðir fyrir okkur en það er ljóst að sú upphæð skiptir milljörðum króna."

Fram kemur í máli Magnúsar að þær upphæðir sem FF hefur áætlað til að mæta endurútreikningi á gengislánum, bæði hjá einstaklingum og fyrirtækjum skipti tugum milljarða kr.

Í lögunum sem sett voru á Alþingi í desember 2010 um endurútreikning gengislána var tekið fram að fyrirtæki væru ekki inn í því ferli. Nú hefur Hæstiréttur dæmt að þau sitji við sama borð og að ekki sé munur á gengislánum til einstaklinga og fyrirtækja eins og lögin gerðu ráð fyrir.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×