Viðskipti innlent

Hefðu getað afskrifað meiri skuldir hjá fólki

Núna standa yfir nefndadagar á Alþingi en þá er stíft fundað í hinum ýmsu nefndum þingsins. Vera má að stjórnarformenn Arion banka og Íslandsbanka verði kallaðir fyrir viðskiptanefnd til að ræða laun bankastjóra.Fréttablaðið/GVA
Núna standa yfir nefndadagar á Alþingi en þá er stíft fundað í hinum ýmsu nefndum þingsins. Vera má að stjórnarformenn Arion banka og Íslandsbanka verði kallaðir fyrir viðskiptanefnd til að ræða laun bankastjóra.Fréttablaðið/GVA
Lilja Mósesdóttir
Rætt verður á fundi viðskiptanefndar Alþingis í dag hvort tilefni sé til að kalla fyrir nefndina stjórnarformenn Íslandsbanka og Arion banka. Lilja Mósesdóttir, þingmaður Vinstri grænna og formaður nefndarinnar, segir vonir hafa staðið til að hægt yrði að ræða þau mál á fundi nefndarinnar í gær, en þá komu á fund hennar fulltrúar bankans til að fara yfir ársreikninga bankanna.

„Við fengum mjög greinargóðar skýringar varðandi hagnað bankanna og hvernig hann er til kominn," segir Lilja og vísar til þess að 14,3 milljarðar króna af hagnaði Arion banka séu vegna endurmats á eignum og 13 milljarðar hjá Íslandsbanka. „Þetta segir okkur að bankarnir eru að afskrifa minna en þeir bjuggust við." Hagnaðinn segir hún fara inn í bankann sem aukið eigið fé og endi síðan í vasa kröfuhafa bankanna. „Það er ekki það sem við myndum vilja sjá, sérstaklega í ljósi þess að hér eiga mörg heimili í erfiðleikum með að láta enda ná saman og mörg fyrirtæki í hægagangi vegna skuldsetningar. Við hefðum viljað sjá þetta fara til viðskiptavina bankanna," segir hún og telur að ræða þurfi við bankana hvort rétt hefði verið að fara neðar með afskriftaprósentu en gert var í svokallaðri 110 prósenta leið í skuldaafskriftum.

Lilja áréttar þó að hún hafi ekkert á móti hagnaði í bankarekstri. „En hann á að koma sem rekstrarafgangur, en í raun er rekstrarkostnaður að aukast hjá bönkunum, meðal annars vegna þess að laun eru að hækka og starfsfólki að fjölga. Þetta er þvert á það sem ætlunin var að ná fram, sem er minna bankakerfi."

Um leið segir Lilja ljóst að hér sé við lýði kapítalískt hagkerfi og því ekki hægt að skipta sér af rekstri bankanna með beinum hætti. Meðal annars sé það ástæðan fyrir því að hún hafi stungið upp á sérstakri skattlagningu á laun yfir einni milljón króna. Hugmyndin hafi fengið góðar undirtektir í þingliðinu þótt sumum hafi þótt ein milljón fulllág tala, ekki hafi verið ætlunin að leggja sérstakan skatt á stéttir á borð við sjómenn og lækna.

„Hugmyndin er að ná þeim sem eru með tvær, þrjár og fjórar milljónir í laun." Lilja telur því raunhæft að hefja sérstaka skattlagningu á laun á bilinu 1,2 til 1,5 milljónir króna á mánuði og láta skattprósentuna ná allt að 70 prósentum. „En þetta yrði svona symbolískur skattur. Ríkið fær ekki rosalegar tekjur af þessu," segir hún en telur um leið eðlilegt að þeir sem hæstar hafi tekjurnar beri mestan kostnað af endurreisn þjóðfélagsins. Það hafi til dæmis verið gert í Bandaríkjunum eftir seinna stríð.

olikr@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×