Viðskipti innlent

Lífeyrissjóðir hafa afskrifað 105 milljarða í bankabréfum

Lífeyrissjóðir landsins hafa afskrifað 105 milljarða kr. af skuldabréfum innlánsstofnanna frá hruninu haustið 2008. Fyrir hrunið námu eignir sjóðanna 148 milljörðum kr. í þessum bréfum en í dag er staða þeirra 43 milljarðar kr.

Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka þar sem fjallað er um eignir lífeyrissjóðanna. Þar segir að hreinar eignir lífeyrissjóðanna jukust að raungildi um 6,7% í janúar síðastliðnum frá sama tíma í fyrra. Námu hreinar eignir þeirra til greiðslu lífeyris ríflega 1.935 milljörðum kr. og hafa þær aldrei verið meiri í krónum talið.

Ef miðað er við nýbirtar tölur Hagstofu um landsframleiðslu samsvöruðu eignir lífeyrissjóðanna í janúarlok 125% af vergri landsframleiðslu síðasta árs. Íslenska lífeyrissjóðakerfið er því enn með þeim öflugustu á heimsvísu á þennan mælikvarða, þótt verulega hafi gefið á bátinn undanfarin misseri. Raunávöxtun sjóðanna hefur þó verið talsvert minni en ofangreindar tölur gefa til kynna, þar sem innflæði í þá vegna iðgjaldagreiðslna er talsvert meira en útgreiðslur vegna lífeyris og úttektar séreignarsparnaðar.

Raunar verður að hafa í huga að ekki eru öll kurl komin til grafar varðandi endanlegt verðmæti tiltekinna eignaflokka sjóðanna í kjölfar bankahrunsins, og þarf að taka framangreindum tölum með þeim fyrirvara,“ segir í Morgunkorninu.

„Sjóðirnir eru til að mynda allstórir kröfuhafar í þrotabú gömlu bankanna. Má þar nefna að eignir þeirra í skuldabréfum innlánsstofnana námu148 milljörðum kr. í lok september 2008 en nú í janúarlok námu þær 43 milljörðum kr. Þessar eignir hafa því minnkað um 70% í bókum sjóðanna, en ekki er loku fyrir það skotið að einhver frekari niðurfærsla muni þar eiga sér stað, þótt á hinn bóginn sé heldur ekki hægt að útiloka að niðurstaðan verði hagfelldari þegar eignum gömlu bankanna verður á endanum útbýtt til kröfuhafa.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×