Handbolti

HM 2011: Norsku stelpurnar tryggðu sér efsta sætið

Sigurður Elvar Þórólfsson í Santos skrifar
Mynd/Pjetur
Noregur tryggði sér efsta sætið í A-riðli í kvöld með 28-27 sigri gegn Svartfjallandi á heimsmeistaramótinu í handbolta kvenna hér í Santos. Lokamínútur leiksins voru æsispennandi en Norðmenn misstu niður ágætt forskot sitt sem liðið hafði megnið af leiknum. Noregur mætir Hollendingum eða Suður-Kóreu í 16-liða úrslitum.

Staðan í hálfleik var 15-11 fyrir Noreg en liðið komst í 9-2 eftir 12 mínútur. Í stöðunni 13-6 náði Svartfjallaland að skora 5 mörk í röð og staðan var skyndilega 13-10.

Norðmenn skoruðu fyrstu þrjú mörkin í síðari hálfleik og komust í 18-11 en Svartfellingar gáfust ekki upp. Þegar um 10 mínútur voru eftir af leiknum skoraði Svartfjallaland 3 mörk í röð, staðan var þá 24-22. Liðin skiptust á að skora eftir það en markvörður Noregs, Katrine Lunde Haraldsen, varði oft ótrúlega vel á lokamínútunum og bjargaði því að Noregur lenti ekki undir. Hún varð alls 16 skot.

Linn Jorum Sulland var markahæst í liði Noregs með 9 mörk en Katarina Bulatovic og Popovic skoruðu 7 mörk hvor um sig fyrir Svartfjallaland.

Þórir Hergeirsson fagnaði sigrinum innilega líkt og aðrir í norska liðinu. Íslenski þjálfarinn var mjög sáttu við að ná efsta sætinu. Norðmenn unnu fjóra síðustu leikina í riðlinum eftir óvænt tap gegn Þjóðverjum í fyrstu umferð.

Svartfellingar voru allt annað en ánægðir með frönsku Bonaventura systurnar sem dæmdu leikinn. Á lokakaflanum var Bojana Popovic rekinn af velli fyrir ranga skiptingu og í kjölfarið varð allt vitlaust á varamannabekk Svartfjallalands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×