Viðskipti innlent

Ekkert löndunarbann í bili

Tómas H. Heiðar Samningamaður Íslands í makríldeilunni.
Tómas H. Heiðar Samningamaður Íslands í makríldeilunni.

Evrópusambandið (ESB) hefur enn ekki tilkynnt íslenskum stjórnvöldum um boðað löndunarbann á makrílafla íslenskra skipa í höfnum aðildarríkja sambandsins. Eins og fram hefur komið eru ESB og Noregur ósátt við einhliða ákvörðun Íslendinga um úthlutun makrílkvóta.

Á fundi sameiginlegu EES-nefndarinnar á föstudag létu fulltrúar ESB sér nægja að upplýsa að bannið væri til skoðunar.

Tómas H. Heiðar, aðalsamningamaður Íslands í viðræðum um makrílveiðar, segir við Fréttablaðið að þrátt fyrir að ekkert bann sé í gildi séu slíkar hugmyndir í samræmi við lög.

„Samkvæmt íslenskum lögum er erlendum skipum, sem stunda veiðar úr sameiginlegum fiskistofnum sem ekki er samkomulag um stjórnun á, óheimilt að landa afla úr slíkum stofni í íslenskum höfnum. Þetta ákvæði er í fullu samræmi við EES-samninginn og sams konar ákvæði er að finna í norskum lögum."

Telja íslensk stjórnvöld því ekki tilefni til viðbragða komi til þess að ESB beiti sams konar reglum. Ísland sé hins vegar reiðubúið til að setjast að nýju að samningaborðinu og leysa málið. - þj






Fleiri fréttir

Sjá meira


×