Viðskipti innlent

Greining spáir verðhjöðnun, verðbólgan verður 2%

Greiningardeild Arion banka spáir því að verðlag lækki um 0,8% í janúar frá fyrri mánuði. Ástæða verðlækkunar er að stærstum hluta vegna útsöluáhrifa. Gangi spáin eftir verður tólf mánaða verðbólga komin í 2% í janúar samanborið við 2,5% í desember. Án skattaáhrifa verður verðbólgan hinsvegar komin í 1,8%.

Fjallað er um málið í Markaðspunktum greiningarinnar. Þar segir að ákvörðun Hagstofunnar um að taka útvarpsgjaldið út úr vísitölunni tekur einnig gildi í janúar og hefur 0,4% áhrif til lækkunar á vísitölu neysluverðs. „Ef horft er framhjá aðgerðum Hagstofunnar þá erum við að spá 0,4% verðhjöðnun, sem svipar til þess sem mældist í janúar í fyrra," segir í Markaðspunktunum.

„Það sem vegur á móti öllum þessum lækkunum í janúar eru skatta- og gjaldskrárhækkanir hjá hinu opinbera, en stór óvissuþáttur í spánni snýr að gjaldskrárhækkunum sveitarfélaga, þ.e. hversu mikil áhrifin verða vegna boðaðra hækkana."

Þá segir að samkvæmt bráðabirgðaspá greiningarinnar (eldsneyti og húsnæðisliður óbreyttur) er gert ráð fyrir 0,6% hækkun í febrúar, 0,4% hækkun í mars og 0,2% hækkun í apríl.

"Gangi bráðabirgðaspá okkar eftir verður 12 mánaða verðbólga komin í 1,3% í apríl," segir í Morgunkorninu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×