Viðskipti innlent

Aon: Pólitísk áhætta fyrir fjárfesta hefur aukist á Íslandi

Samkvæmt nýju áliti frá alþjóðlega áhættumatsfyrirtækinu Aon Risk Solutions hefur pólitísk áhætta fyrir viðskipti og fjárfestingar aukist á Íslandi á þessu ári. Áhættan er metin í meðallagi (medium) en hún var í lægra meðallagi (medium low) í fyrra og árið 2009 en lítil (low) árið 2008.

Aon framkvæmir þetta áhættumat sitt í samvinnu við viðskiptablaðið Financial Times og má nálgast niðurstöðurnar á vefsíðu blaðsins www.ft.com.

Það sem Aon nefnir sem helstu áhættuþættina á Íslandi eru gjaldeyrisviðskiptin, þjóðfélagslegur órói eins og verkföll og mótmæli, hættan á greiðslufalli ríkissjóðs og pólitísk afskipti.

Samkvæmt Aon er Ísland á svipuðum slóðum hvað þessa áhættu varðar í ár og nokkur lönd í Mið- og Suður Ameríku, Rússland, Kína, Egyptaland og Tyrkland.

Í frétt um málið í blaðinu kemur m.a. fram að dregið hefur úr áhættunni í löndunum sem liggja fyrir sunnan Sahara eyðimörkina. Löndum á borð við Kenía, Mósambík, Rúanda og Úganda.

Þrátt fyrir að áhættan hafi versnað í 19 löndum á milli ára er ástandið í heiminum í heild betra og stöðugra en í fyrra. Skýringin er að af þessum 19 löndum eru 13 smáríki í Karabíska hafinu.




















Fleiri fréttir

Sjá meira


×