Viðskipti innlent

SPKef né Byr hafa skilað ársreikningi fyrir síðasta ári

Jónas Margeir Ingólfsson skrifar
Hvorki SPKef né Byr hafa skilað ársreikningi fyrir árið 2010. Þingmaður sjálfstæðisflokksins,  Guðlaugur Þór Þórðarson, segir þetta ótrúleg vinnubrögð af hálfu ríkisstjórnarinnar. Skattgreiðendur eigi heimtingu á að sjá stöðu fyrirtækja í opinberri eigu.

Samkvæmt ársreikningaskrá Ríkisskattstjóra hefur hvorki Byr né SPKef skilað ársreikningi sínum fyrir árið 2010 en ríkið tók yfir fyrirtækin hinn tuttugasta og anna apríl árið tvö þúsund og tíu.

Í eigendastefnu ríkisins, sem útgefin er af fjármálaráðuneytinu, kemur fram að fjármálafyrirtæki í eigu ríkisins skulu ársfjórðungslega birta fjárhagsupplýsingar sínar opinberlega. Þessar upplýsingar hafa ekki verið birtar en þingmaður Sjálfstæðisflokksins segir það skjóta skökku við að fjármálaráðherra sjálfan hafa sett þessar reglur.

Guðlaugur Þór bendir jafnframt á lög um fjármálafyrirtæki þar sem kveðið er á um að fjármálafyrirtæki skuli skila ársreikningum sínum í síðasta lagi þremur mánuðum eftir lok reikningsárs.

Samkvæmt upplýsingum frá fjármálaráðuneytinu voru engir ársreikningar til þegar félögin voru tekin yfir í apríl árið 2010. Ný félög hafi verið stofnuð utan um starfsemi þeirra með nýjum stofnefnahagsreikiningi. Drög séu þó til að ársreikningi fyrir SPkef sem útbúinn var af endurskoðanda sparisjóðsins, en SPKef er nú orðinn hluti af Landsbankanum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×