Handbolti

Þrjú stig í viðbót duga í undanúrslit

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Snorr Steinn Guðjónsson í leik með Íslandi á HM í Svíþjóð.
Snorr Steinn Guðjónsson í leik með Íslandi á HM í Svíþjóð. Mynd/Valli

Íslandi mun líklega ekki duga sex stig til að komast áfram í undanúrslit á HM í handbolta. Það væri hins vegar nóg að fá sjö stig.

Ísland á tvo gríðarlega erfiða leiki eftir í milliriðlakeppni HM - gegn Spáni í dag og heims-, Evrópu- og Ólympíumeisturum Frakklands á morgun.

Ísland er núna með fjögur stig í þriðja sæti riðilsins en Spánn og Frakkland eru bæði með fimm stig í næstu sætum fyrir ofan.

Sex stig gætu dugað Íslandi til að komast áfram í undanúrslitin en þá þyrftu úrslit annarra leikja að fara nákvæmlega eftir handriti Íslands.

Það verður hins vegar að teljast afar líklegt að Frakkland og Spánn vinni þann leik sem þessi lið eiga eftir fyrir utan leikina gegn Íslandi (Frakkland mætir Noregi í dag og Spánn leikur gegn Ungverjalandi á morgun).

Miðað við það munu bæði Frakkland og Spánn fá minnst sjö stig í riðlinum. Þá er bara spurning hvað Ísland fær mörg stig.

Ísland vinnur bæði Spán og Frakkland

1. Ísland 8 stig

2.-3. Frakkland 7 stig

2.-3. Spánn 7 stig

Ísland hlýtur átta fer áfram sem sigurvegari milliriðilsins.

Frakkland og Spánn enda með sjö stig hvort. Þar sem liðið gerðu jafntefli í innbyrðisviðureign sinni ræðst það á heildarmarkatölunni hvort liðið fylgir Íslandi áfram í undanúrslit. Markatala Frakka í dag er mun betri en hjá Spánverjum en það gæti vitanlega breyst.

Ísland vinnur Spán, gerir jafntefli við Frakkland

1. Frakkland 8 stig

2. Ísland 7 stig

3. Spánn 7 stig


Frakkar fara áfram sem sigurvegarar riðilsins.

Ísland og Spánn verða jöfn að stigum en Ísland fer áfram þar sem það hafði betur gegn Spáni í innbyrðisviðureign liðanna.

Ísland gerir jafntefli við Spán, vinnur Frakkland

1. Spánn 8 stig

2. Ísland 7 stig

3. Frakkland 7 stig

Spánn fer áfram sem sigurvegari riðilsins.

Ísland og Frakkland verða jöfn að stigum en Ísland fer áfram þar sem að það hafði betur gegn Frakklandi í innbyrðisviðureign liðanna.

Hvernig kemst Ísland áfram með sex stig?

- Ísland verður helst að vinna annað hvort Frakkland eða Spán. Tvö jafntefli duga ekki nema að annað hvort Frakkar eða Spánverjar tapi  hinum leiknum sínum og verði einnig með lakara markahlutfall en Ísland.

- Þýskaland má ekki komast upp í sex stig og verður því að tapa stigi annað hvort gegn Ungverjalandi í dag eða Noregi á morgun.

- Það lið sem Ísland vinnur (Spánn eða Frakkland) má ekki vinna hinn leikinn sinn sem það á eftir (gegn Noregi eða Ungverjalandi).

Ísland hlýtur 0, 1 eða 2 stig úr síðustu tveimur leikjum sínum

Í þessari stöðu eru afar sterkar líkur á því að Ísland verði í fjórða sæti riðilsins og spili þar með um 7.-8. sæti mótsins.

Það miðast við það að Þýskaland vinni bæði Ungverjaland og Noreg í síðustu tveimur leikjum sínum og komist upp í sex stig.

Ef Ísland og Þýskaland verða jöfn að stigum eftir að millriðlakeppninni lýkur verður Þýskaland ofar í töflunni vegna betri árangurs í innbyrðisviðureign liðanna.

Það skal þó tekið fram að þessir útreikningar eru aðeins lesendum til glöggvunar og að enn eru margir möguleikar í stöðunni fyrir íslenska liðið sem ekki verða útlistaðir allir hér.

Úrslit, staða og næstu leikir .




Fleiri fréttir

Sjá meira


×