Handbolti

Höldum næsta markmiði fyrir okkur

Henry Birgir Gunnarsson í Linköping skrifar

„Ég var afskaplega ánægður með þennan leik. Það var hart tekist á og bæði lið fórnuðu sér. Þetta var gríðarlega fastur varnarleikur. Sóknarleikurinn var ekki upp á það besta í fyrri hálfleik en snarbatnaði í síðari hálfleik. Varnar­leikurinn varð enn betri og markvarslan var náttúrlega bara stórkostleg hjá Björgvini," sagði afar sáttur landsliðsþjálfari, Guðmundur Guðmundsson.

„Það var okkar markmið að fara með hámarksstigafjölda í milliriðil og má upplýsa það núna. Nú tökum við annað markmið sem við höfum út af fyrir okkur. Þar gildir samt áfram það sama, að taka einn leik í einu. Nú fáum við enn sterkari andstæðinga og þar verður bitist um hvern einasta punkt."

Hornamaðurinn Þórir Ólafsson skilaði enn einum fínum leik í hús í gær og var brosmildur eftir leik.

„Við vorum grimmir allan leikinn og það fór í pirrurnar á þeim. Við náðum að berja á þeim og í sókninni vorum við klókari. Við vissum að við fengjum færi þó svo að þeir hafi reynt að slátra okkur. Vorum þolinmóðir og létum boltann ganga," sagði Þórir.

„Vörnin var náttúrlega stórkostleg. Sverre og Diddi vinna þvílíka vinnu og Bjöggi kemur svo með. Þessi leikur var mikil slagsmál. Þeir voru búnir að pumpa þetta upp í blöðunum en við sýndum að við erum betri."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×