Viðskipti innlent

Lítil fiskiþjóð sem fékk risa egó og varð bjöguð mynd af Wall Street

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Michael Lewis
Michael Lewis
Ísland var litla útgáfan af Wall Street, fiskiþjóð sem fékk ofursjálfstraust í fjárfestingum þar sem karlmenn réðu öllu. Þetta sagði Michael Lewis, einn þekktasti viðskiptablaðamaður í heimi, í viðtali við spjallþáttastjórnandann Charlie Rose.

Bækur Lewis hafa selst í mörgum milljónum eintaka, en ein af þeim þekktustu er Liar's Poker, bók sem hann skrifaði um reynslu sína sem skuldbréfamiðlari hjá fjárfestingarbankanum Salomon Brothers. Þá skrifaði hann The Big Short, en í henni fjallar hann um hvernig aðeins örfáir sérfræðingar komu auga á húsnæðisbóluna og skuldabréfavafningsbóluna í Bandaríkjunum, skortseldu fjármálaafurðir stóru bankanna á Wall Street og græddu óheyrilegar fjárhæðir.

Lewis kom til Íslands eftir bankahrunið haustið 2008 og skrifaði grein um landið í tímaritið Vanity Fair sem bar heitið „Wall Street on the Tundra," þessi grein og fleiri greinar um lönd sem fóru illa úr kreppunni, eins og Írland, er grundvöllur nýrrar bókar hans sem ber heitið Boomerang:Travels in the New Third World. Grein hans um Írland, „When Irish eyes are crying" vakti mikla athygli á sínum tíma, en í greininni fór hann m.a yfir hversu ólíka aðferð Írar og Íslendingar notuðu eftir hrunið, en Írar ákváðu að ábyrgjast allar skuldir írska bankakerfisins.

Lewis var í viðtali hjá spjallþáttastjórnandanum Charlie Rose í fyrrakvöld, þar sem Rose spurði hann sérstaklega um Ísland og ekki stóð á svörum.

Lewis sagði í viðtalinu við Rose að Íslendingar hefur verið með þá ranghugmynd í kollinum að þeir væru snillingar í fjármálum. Þeir hafi búið til söguskýringu til að réttlæta þessa hugmynd og sínar aðstæður og orðið sannfærðir um að þeir hefðu sérstaka náðargáfu í viðskiptum.

Lewis nefndi sérstaklega fjárfestingu Hannesar Smárasonar og FL Group í American Airlines. Og þá staðreynd að skrifað var sérstakt minnisblað fyrir aðra hluthafa í félaginu um hvernig ætti að reka það betur, en eins og frægt er orðið vildi Hannes gera vildarklúbb fyrirtækisins, AAdvantage, að sjálfstæðu fyrirtæki með aðkomu nýrra hluthafa og kom í viðtöl vestanhafs til að kynna þessar hugmyndir sínar.

Lewis velti upp þeirri spurningu hvaðan Íslendingarnir hafi fengið þessa hugdettu, að kaupa fyrirtæki og vera sannfærðir um að geta rekið þau betur en þeir sem hefðu stýrt þeim áratugum saman. Hann sagði hluta af skýringunni ef til vill þá að margir íslenskir kaupsýslumenn hafi menntað sig í Bandaríkjunum og íslenska viðskiptalífið hafi ef til vill verið lítil bjöguð spegilmynd af því ameríska. Hann fór líka yfir það að hér hefði verið hálfgert feðraveldi fyrir bankahrunið, karlmenn hafi verið allt í öllu, en eftir hrun hefðu Íslendingar lært sína lexíu, konur hefðu komið í auknum mæli að viðskiptalífinu og forsætisráðherra landsins væri í dag kona.

Hér er viðtal Rose við Lewis í heild sinni.
Í spilaranum hér fyrir ofan er hljóðskrá með þeim hluta viðtalsins þar sem hann fjallar um Ísland.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×