Handbolti

Løke rekinn úr norska landsliðinu fyrir agabrot

Sigurður Elvar Þórólfsson skrifar
Ingimundur Ingimundarson er hér í baráttunni gegn Frank Løke á HM í Svíþjóð.
Ingimundur Ingimundarson er hér í baráttunni gegn Frank Løke á HM í Svíþjóð. Mynd/Valli

Frank Løke hefur vakið athygli fyrir flest annað en handboltafærni sína á HM í handbolta og línumaðurinn hefur nú lokið keppni með formlegum hætti. Robert Hedin þjálfari norska liðsins rak hann úr landsliðshópnum í gær.

Løke braut agareglur Hedin hvað varðar áfengisnotkun og mun Løke ekki spila fleiri landsleiki á meðan Hedin stjórnar liðinu. Løke, sem er 30 ára gamall, hefur áður brotið agareglur norska landsliðsins og hann er líklega eini atvinnumaðurinn í faginu sem hefur samið við tvö lið - nánast á sama tíma.

Fyrir það var hann úrskurðaður í keppnisbann og mátti ekki taka þátt í leikjum í Evrópukeppninni í níu mánuði. Løke samdi við RK Zagreb í Króatíu árið 2009 en nokkru síðar skrifaði hann undir samning við danska liðið Skjern. Króatíska liðið lánaði hann til þýska liðsins TuS N-Lübbecke sem Þórir Ólafsson leikur með.

Løke var valinn í úrvalslið EM árið 2008 sem fór fram í Noregi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×