Handbolti

Við höldum með Spáni í dag

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mynd/Valli

Í dag fer fram lokaumferð milliriðlakeppninnar á HM í handbolta og mun þá ráðast hvaða sæti Ísland mun spila um í keppninni.

Ísland mætir heims-, Evrópu- og Ólympíumeisturum Frakklands í lokaleik milliriðils 1 í kvöld en leikurinn hefst klukkan 19.45 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport. Leiknum verður einnig lýst beint á Boltavakt Vísis og Fréttablaðsins.

Ísland er nú í þriðja sæti riðilsins með fjögur stig en sú staða gæti komið upp að strákarnir okkar verði öruggir með sæti áður en leikurinn við Frakka hefst.

Svo það verði mögulegt verður Spánn að vinna Ungverjaland sem er einnig með fjögur stig. Ísland vann þó Ungverja í innbyrðisviðureign liðanna og er því ávallt ofar í töflunni verði þau jöfn að stigum í lok milliriðlakeppninnar.

Ef Ísland, Ungverjaland og Þýskaland verða öll með fjögur stig eftir leiki dagsins verður Ísland efst þeirra með bestan árangur í innbyrðisviðureignum þessara þriggja liða.

Þýskaland og Noregur mætast í fyrsta leik dagsins og gæti þýskur sigur þar reynst íslenska liðinu dýrkeyptur.

Þýskaland kemst með sigri upp í fjögur stig og gæti ýtt Íslandi niður í fimmta sæti riðilsins ef Ungverjar ná einnig stigi gegn Spánverjum. Þá mun Ísland spila um 9.-10. sæti keppninnar og kæmist þannig ekki inn í umspil um sæti á Ólympíuleikunum í Lundúnum árið 2012.

Ef Ísland nær hins vegar að vinna Frakkland í kvöld skipta aðrir leikir engu máli - sigur gegn Frökkum mun ávallt tryggja okkur þriðja sæti riðilsins og þar með rétt til að spila um 5.-6. sæti mótsins.

Liðin sem verða í 2.-7. sæti á HM í Svíþjóð fá þátttökurétt í Ólympíuumspilinu.

Möguleikarnir:

Ísland í 3. sæti riðilsins (og spilar um 5.-6. sætið á HM)

Ísland vinnur Frakkland

eða

Ísland gerir jafntefli við Frakkland

- og Ungverjaland gerir jafntefli eða tapar fyrir Spáni

eða

Ísland tapar fyrir Frakklandi

- og Ungverjaland tapar fyrir Spáni

Ísland í 4. sæti riðilsins (og spilar um 7.-8. sætið á HM)

Ísland gerir jafntefli við Frakkland

- og Ungverjaland vinnur Spán

eða

Ísland tapar fyrir Frakklandi

- og Ungverjar ná stigi gegn Spáni

- og Þýskaland vinnur ekki Noreg

Ísland í 5. sæti riðilsins (og spilar um 9.-10. sætið á HM)

Ísland tapar fyrir Frakklandi

- og Ungverjar ná stigi gegn Spáni

- og Þýskaland vinnur Noreg




Fleiri fréttir

Sjá meira


×