Handbolti

Hens: Megum ekki gera í brækurnar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Pascal Hens í leik með þýska landsliðinu.
Pascal Hens í leik með þýska landsliðinu. Nordic Photos / Bongarts
Þýska landsliðið hefur sett sér það markmið að ná sjöunda sæti á HM í SVíþjóð og þar með þátttökurétt í undankeppni Ólympíuleikanna.

Þýskaland mætir Íslandi í milliriðlakeppninni í dag. Liðin eru í ólíkum stöðum. Ísland vann alla sína leiki í B-riðli og er eina liðið í milliriðlinum með fjögur stig fyrir leiki dagsins.

Þjóðverjar töpuðu hins vegar bæði fyrir Spáni og Frakklandi í A-riðli og eru stigalausir í milliriðlakeppninni.

„Við megum alls ekki gera í brækurnar, jafnvel þótt svo að við séum að spila gegn sterkum liðum," sagði skyttan Pascal Hens við þýska fjölmiðla í dag.

Það má sjá á umfjöllun þýskra fjölmiðla að væntingum fyrir leikinn í dag er stillt í hóf. Miðað við gengi liðsins á HM hingað til er ekki búist við miklu af þýska liðinu í dag, sérstaklega ekki þar sem að Ísland vann báða æfingaleiki liðanna í Laugardalshöllinni skömmu fyrir mót.

„Ísland var ekki endilega sterkari aðilinn í báðum leikjunum ef við horfum aðeins á spilamennskuna," vildi Hens meina. „Við gerðum bara fleiri mistök."

„Ef við höldum uppteknum hætti og spilum eins og við gerðum gegn Túnis, þá eigum við að minnsta kosti möguleika."

Þýskaland vann Túnis með tíu marka mun í lokaumferð riðlakeppninnar og tryggði sér þar með sæti í milliriðlakeppninni.

Markvörðurinn Johannes Bitter vildi ekki gera of mikið úr tapleikjunum á Íslandi. „Það var á Íslandi - nú erum við að spila á hlutlausum velli."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×