Viðskipti innlent

Fjárfestar ósammála matsfyrirtækjum um Ísland

Bloomberg fréttaveitan veltir því fyrir sér afhverju alþjóðlegir fjárfestar séu ósammála stóru matsfyrirtækjunum þremur þegar kemur að trausti á íslenska hagkerfinu. Bent er á velheppnað skuldabréfaútboð ríkissjóðs í vor upp á milljarð dollara þar sem eftirspurnin reyndist tvöfalt meiri en framboðið.

Líkum er leitt að því að matsfyrirtækin séu að bregðast við ofmati sínu á styrk íslenska efnahagskerfisins fyrir hrunið haustið 2008 með því að vanmeta styrkinn núna. Í þessu samhengi má nefna að Moody´s hélt lánshæfiseinkunni fyrir Ísland í Aaa þar til aðeins fimm mánuðum fyrir hrunið.

Sem stendur er lánshæfiseinkunn Íslands í ruslflokki hjá einu af þremur stærstu matsfyrirtækjunum og í neðst fjárfestingarflokki hjá hinum tveimur. Á Bloomberg segir að þetta eru töluvert lægri einkunnir en hjá Spáni en hinsvegar er skuldatryggingaálagið á Íslandi töluvert lægra en á Spáni. Álagið á Ísland fer lækkandi og er komið niður í 228 punkta á meðan álagið á Spán fer hækkandi og stendur í 257 punktum.

Rætt er við Valdimar Ármann hagfræðing hjá GAMMA sem segir að í ljósi þess hve skuldabréfaútboðið í vor gekk vel sé ljóst að alþjóðlegir fjárfestar horfi ekki bara til matsfyrirtækjanna heldur fari sjálfir í gegnum tölurnar og upplýsingarnar sem liggja fyrir áður en þeir taka ákvarðanir sínar.

Bloomberg ræðir við talsmenn matsfyrirtækjanna þriggja um málið. Paul  Rawkins hjá Fitch Ratings segir að ef þróunin á Íslandi verði betri en gert er ráð fyrir geti lánshæfiseinkunn Íslands hækkað. Hinsvegar sé ýmis óvissa til staðar sem taka verði tillit til. Fitch er með lánshæfiseinkunn Íslands í ruslflokki en hefur breytt horfum úr neikvæðum og í stöðugar.

Dan Piels hjá Moody´s segir að það sé ekkert misræmi milli lánshæfiseinkunnar Íslands og landa á evru-svæðinu. Skuldabréfaútgáfur séu bara einn af þeim þáttum sem lagðir eru til grundvallar við mat á lánshæfi.

Mark Tierney hjá Standard & Poor´s segir að þeir hafi stöðugt auga með þróuninni á Íslandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×