Handbolti

Sigurður: Eigum við ekki að segja að við tökum þá aftur núna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ólafur Stefánsson og Róbert Gunnarsson.
Ólafur Stefánsson og Róbert Gunnarsson. Mynd/Valli
Sigurður Bjarnason, einn þriggja sérfræðinga Vísis á HM í handbolta, segist neita að gefast upp og spáir íslenska liðinu sigri á móti Frökkum í lokaleik milliriðilsins á eftir.

„Þetta eru Heims-, Evrópu og Ólympíumeistarar og þeir eru búnir að vinna nánast alla leiki á síðustu stórmótum síðustu ár nema á móti okkur. Eigum við því ekki að segja að við tökum þá aftur núna. Við erum vonandi sú þjóð sem getur unnið Frakkana," segir Sigurður Bjarnason og vísar þar til 32-34 sigurs á Frökkum í leik upp á líf eða dauða á HM í Þýskalandi 2007.

„Þetta er sagan en miðað við ástandið á liðinu eins og það er í dag þá er eini möguleikinn að strákarnir berjist eins og ljón og þjappi sér verulega saman. Nú duga engar pælingar hvort menn fari vinstra megin eða hægra megin eða hvort menn ætli að taka Kaíró eða eitthvað annað kerfi. Nú þurfa menn bara að loka augunum og halda áfram," sagði Sigurður.

„Þetta er úrslitaleikurinn því það gæti verið að Ungverjar verði búnir að vinna og Þjóðverjarnir verði búnir að vinna Norðmenn. Þá værum við bara næstneðstir í riðlinum ef við töpum. Ég vona menn geri sér grein fyrir því og komi í þennan leik til þess að vinna hann," sagði Sigurður.

„Ég blæs á alla þessa umræðu að menn séu að velja sér mótherja. Ég gæti trúað Júggunum til þess en það er eina þjóðin sem ég trúi til þess að gera svona. Það er samt lítill möguleiki á því samt því það á ekki heima í íþróttum að tapa viljandi. Frakkarnir ætla að vinna þennan leik, vinna síðan næstu tvo leiki líka og halda sínum rytma," segir Sigurður.

„Við erum í þannig ástandi að ef við byrjum vel þá fáum við trú á þessu því þá kviknar þetta extra í okkur. Ef við lendum fimm mörkum undir þá er það í undirmeðvitundinni að þetta sé alltof erfitt. Þetta fer því rosalega mikið eftir því hvernig við náum að byrja," segir Sigurður.

„Það er kannski spurning um að bakka aðeins í vörninni og fara að í gömlu 6:0 vörnina okkar. Við myndum koma þeim kannski svolítið á óvart þannig og við myndum vera þéttari. Við þurfum að vera mjög þéttir á móti þeim og það má ekki vera of langt á milli manna. Svo þarf Björgvin að eiga einhvern stórkostlegan leik í markinu," segir Sigruður.

„Ég neita að gefast upp og spái okkur sigri. Ég væri allavegna að fara þarna inn á til þess að vinna. Við vorum í þessum sporum 2003 þegar við vorum upp við vegg og unnum þá Júggana með sjö mörkum í leik um Ólympíusætið. Ég myndi líta á þennan leik sem svoleiðis leik því tap í þessum leik gæti þýtt að við ættum ekki lengur möguleika á að spila um Ólympíusætið. Þetta er bara leikurinn um sætið í forkeppni Ólympíuleikanna," sagði Sigurður að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×