Viðskipti innlent

Reikna með frekari hækkunum á íbúðamarkaði

Greining Íslandsbanka reiknar með því að framhald verði á verðhækkunum og aukinni veltu á íbúðamarkaði á næstunni.

„Við sjáum því fyrir okkur frekari hækkanir á verði íbúðarhúsnæðis og að veltan glæðist enn frekar,“ segir í Morgunkorni greiningarinnar.  „Skuldavandi heimilanna setur skuldsettum kaupum þó skorður og þar með hversu mikil verðhækkunin mun verða. Einnig er hugsanlegt að bóla myndist á þessum markaði, sérstaklega ef gjaldeyrishöftin verða lengi við lýði. Verðlækkun mun þá líklegast fylgja afnámi hafta.“

Umtalsverð aukning hefur verið í fasteignaviðskiptum undanfarið. Í maí síðastliðnum var 399 samningum um íbúðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu þinglýst og í sama mánuði í fyrra voru þeir 192. Aukningin á milli ára er 108%. Heildarfjöldi þinglýstra samninga hefur ekki verið meiri í einum mánuði síðan í lok árs 2007. Það sem af er ári hefur 1.591 samningi verið þinglýst sem er 75% aukning frá sama tíma í fyrra.

Samhliða vaxandi veltu hefur verð íbúðarhúsnæðis verið að hækka. Í apríl síðastliðnum mældist hækkun íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu 2,7% og er það mesta hækkun sem þannig hefur  mælst frá fyrri hluta árs 2008. Í maí í fyrra hafði verðið lækkað um 1,0% yfir tólf mánuði og um10,5% á þessum tíma 2009. Kaupmáttur er nú vaxandi, svartsýnin á undanhaldi, vextir lágir, aðgengi að lánsfjármagni betra og umbætur hafa verið gerðar í skuldavanda heimilanna. Allt þetta hefur nú hvetjandi áhrif á íbúðamarkaðinn.

„Hugsanlegt er að heimilin séu að minnka við sig húsnæði til að vinna á skuldavanda sínum og er það að skapa framboð af sérbýli og einnig í leiðinni spurn eftir fjölbýli. Kann þetta að skýra af hverju verðþróunin hefur verið afar ólík á þessum tveim flokkum íbúðarhúsnæðis en verð íbúða í fjölbýli hefur hækkað um 5,4% yfir síðastliðna 12 mánuði á sama tíma og verð sérbýlis hefur lækkað um 6,4%,“ segir í Morgunkorninu.

„Önnur skýring kann að vera sú að fjárfestar hafa leitað inn á íbúðamarkaðinn í því dapra úrvali fjárfestingakosta sem er á innlendum fjármálamarkaði. Þeir vilja arðsemi og seljanleika og hafa eflaust helst leitað eftir söluvænum íbúðum í fjölbýli sem auðveldar eru til útleigu og leiguverð á móti verði eignar er hátt.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×