Viðskipti innlent

Neyðarlínan kaupir af Vodafone

Neyðarlínan hefur keypt af Vodafone 12 fjarskiptahús og 16 fjarskiptamöstur sem ýmist eru staðsett á hálendindu eða í dreifbýli víða um land.

Í tilkynningu segir að með kaupunum styrkir Neyðarlínan stoðir TETRA fjarskiptakerfisins fyrir neyðar- og viðbragðsaðila. Um er að ræða búnað og tæki sem Vodafone keypti nýverið af Fjarska, fjarskiptafyrirtæki í eigu Landsvirkjunar, eftir að Fjarski ákvað að draga sig út úr samkeppnisrekstri og sinna eingöngu öryggisfjarskiptaþjónustu vegna raforkukerfisins.

Vodafone mun annast gagnaflutninga fyrir Neyðarlínuna til og frá umræddum stöðum en fyrirtækið hefur séð um alla almenna fjarskiptaþjónustu við Neyðarlínuna undanfarin ár.

"Neyðarlínan hefur lagt áherslu á að tryggja góða dreifingu á TETRA fjarskiptum á hálendinu sérstaklega fyrir björgunarsveitir og aðra viðbragðsaðila. Vodafone hafði frumkvæði að því að setja GSM á háfjallastaði sem hefur gert það að verkum að stór hluti hálendis er dekkaður,“ segir Þórhallur Ólafsson, framkvæmdastjóri Neyðarlínunnar í tilkynningunni.

„Þessi fjarskiptaþjónusta fyrir almenning hefur þegar bjargað nokkrum mannslífum auk þess að ferðamenn fara víðar vegna þess að þeir vita að þeir geta náð í Neyðarlínuna þegar vanda ber að höndum. Samstarfið við Vodafone hefur verið mjög gott og mikið. Við þurfum að vera við öllu búin og enda getur alvarlegt hættuástand skapast fyrirvaralaust eins og nýlegt dæmi sannar, þegar eitt stærsta eldgos síðustu áratuga hófst nánast fyrirvaralaust.  Við slíkar aðstæður geta örugg fjarskipti verið lífsbjörg og við látum einskis ófreistað til að bæta kerfið okkar."

"Samstarf okkar við Neyðarlínuna undanfarin ár hefur verið frábært í alla staði. Samstarfið hefur orðið til þess að bæði fjarskiptaþjónusta við almenning og öryggisfjarskiptaþjónusta við viðbragðs- og björgunaraðila hefur stóreflst og samningurinn nú er staðfesting á því, að við ætlum að halda áfram á sömu braut,“ segir Ómar Svavarsson, forstjóri Vodafone.

„Við höfum einnig litið svo á, að það sé mikill gæðastimpill fyrir Vodafone að eins mikilvægur aðili og Neyðarlínan skuli velja að eiga samstarf við okkur umfram aðra. "






Fleiri fréttir

Sjá meira


×