Viðskipti innlent

Baldur hefur frest til 9. nóvember til þess að skila greinargerð

Baldur Guðlaugsson, fyrrverandi ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu.
Baldur Guðlaugsson, fyrrverandi ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu.
Baldur Guðlaugsson, sem dæmdur var í tveggja ára óskilorðsbundið fangelsi í héraðsdómi fyrir innherjasvik og brot í opinberu starfi 7. apríl sl., hefur frest til 9. nóvember nk. til þess að skila greinargerð til Hæstaréttar. Frestur ákæruvaldsins til þess að skila greinargerð rennur út viku síðar, 16. nóvember, samkvæmt upplýsingum frá Sigríði Friðjónsdóttur, ríkissaksóknara.

Baldur var dæmdur fyrir að selja hlutabréf í Landsbankanum 17. og 18. september 2008, fyrir 192 milljónir króna, á sama tíma og hann bjó fyrir innherjaupplýsingum. Hann var á þessum tíma ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu og átti sæti í sérstökum samráðshópi stjórnvalda og eftirlitsstofnanna vegna vandans á fjármálamörkuðum.

Ekkert dómafordæmi er til frá Hæstarétti í innherjamáli. Fyrir utan mál Baldurs hefur aðeins einu sinni verið ákært fyrir innherjasvik, árið 2001. Þá var Gunnar Scheving Thorsteinsson sýknaður af ákæru í tengslum við viðskipti með hlutabréf í Skeljungi en málið kom aldrei til kasta Hæstaréttar.

Mál Baldurs kemst ekki á dagskrá Hæstaréttar fyrr en greinargerðum hefur verið skilað inn til réttarins. Ekki liggur því fyrir hvenær málið verður tekið fyrir í Hæstarétti.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×