Viðskipti innlent

Landsbankatoppar fengu 80 milljónir í starfslokagreiðslur

Mynd: GVA
Mynd: GVA
Æðstu yfirmenn Landsbankans (NBI) fengu samtals rúmlega 80 milljónir kr. í starfslokagreiðslur á síðasta ári þegar þeir létu af störfum. Um er að ræða Ásmund Stefánsson fyrrum bankastjóra og fimm framkvæmdastjóra bankans.

Í ársskýrslu Landsbankans kemur fram að starfslokagreiðsla Ásmundar nam 9,3 milljónum kr. og kom til viðbótar launum hans upp á 6 milljónir kr. en Ásmundur lét af starfi bankastjóra um mitt síðasta ár.

Þessi starfslokagreiðsla til Ásmundar bliknar þó og blánar í samanburði við það sem fimm framkvæmdastjórar bankans fengu í sinn hlut þegar þeir létu af störfum s.l. haust í tengslum við skipulagsbreytingar.

Þar var samtals um að ræða tæplega 71 milljón kr. eða um 14 milljónir kr. fyrir hvern þeirra að meðaltali. Þær greiðslur koma ofan á laun þessarar fimm manna sem námu 74,5 milljónum kr. Samtals fengu þeir því greiddar rúmlega 145 milljónir kr. frá bankanum í fyrra.

Framkvæmdastjórarnir fyrrverandi sem hér um ræðir eru Atli Atlason, Anna Bjarney Guðmundsdóttir, Guðmundur Guðmundsson, Gunnar Viðar og Jón Þorsteinn Oddleifsson.

Athygli vekur í skýrslunni að mánaðarlaun núverandi bankastjóra, Steinþórs Pálssonar, eru lægri en annarra núverandi framkvæmdastjóra bankans. Steinþór er sem kunnugt er með 1,1 milljón kr. í mánaðarlaun en framkvæmdastjórarnir eru með 1,5 milljón kr. í mánaðarlaun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×