Viðskipti innlent

Iðnaðarráðherra ánægður með kísilverið í Helguvík

„Fyrir utan ákvörðun um stækkun álversins í Straumsvík er þetta fyrsta stóra erlenda nýfjárfestingin eftir bankahrun. Þess vegna hefur hún þýðingu í efnahagslegri endurreisn landsins," segir Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra um byggingu á nýju kísilveri í Helguvík.

„Hún mun einnig bæta atvinnuástandið á Reykjanesi en á því er brýn þörf. Ákvörðun GSM að taka þátt í verkefninu er til vitnis um að erlendir fjárfestar telja óhætt að gera samninga til langs tíma á Íslandi og það eru jákvæð skilaboð í alþjóðlegu samhengi.

Síðan gæti þetta verið upphafið að þróun í átt til framleiðslu á hreinkísli hér á landi og þátttöku Íslendinga í vaxandi iðnaði sem tengist sólarrafhlöðum. Græn orka sem nýtist til að beisla sólarorku er draumur margra."

Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, segir byggingu kísilversins vera tímamót. „Þessir samningar eru fyrsta mikilvæga vísbendingin um að þau stóru atvinnuskapandi verkefni sem við höfum ótrauð þurft að kosta og berjast fyrir eru raunhæf og skammt undan," segir Árni.

„Þegar álversverkefnið gengur síðan eftir þýðir þetta algjör umskipti fyrir íbúa á Suðurnesjum og fyrir bæjarfélagið!

Við munum stíga hratt út úr því ömurlega ástandi að búa við mesta atvinnuleysið og búa á láglaunasvæði yfir í að hafa vel launuð og örugg störf fyrir flesta."

Magnús Garðarsson, forstjóri Íslenska kísilfélagsins ehf, segir að mikil vinna undanfarinna fjögurra ára sé nú að skila sér:

„ Ég er þakklátur fyrir það að þetta verkefni sem við höfum unnið að í fjögur ár skuli nú vera komið í höfn. Það hefur verið mjög uppörvandi hvað allir aðilar sem komið hafa að málinu á Íslandi hafa lagt sig fram um að greiða götu þess. Ég vil sérstaklega þakka Katrínu Júlíusdóttur iðnaðarráðherra, Steingrími J. Sigfússyni fjármálaráðherra og Árna Sigfússyni, bæjarstjóra í Reykjanesbæ, fyrir þeirra góða stuðning og embættismönnum fyrir að hafa lagt á sig ómælda vinnu á síðustu mánuðum til þess að ljúka öllum frágangi," segir Magnús.

„Alan Kestenbaum hjá Globe Speciality Metal á heiður skilinn fyrir að deila með okkur þeirri sýn að Ísland sé kjörinn staður fyrir einhverja hagkvæmustu kísilframleiðslu sem um getur, auk þess sem hún byggir á nýtingu endurnýjanlegrar og samkeppnishæfrar orku.."




Tengdar fréttir

Kísilverið í Helguvík skapar 300 ársverk

Gert er ráð fyrir að framkvæmdir við kísilver í Helguvík hefjist í byrjun sumars. Verksmiðjuhús munu rísa á 20 mánuðum og eru um 300 ársverk áætluð á framkvæmdatíma.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×